Fara í efni
Fréttir

Ein sú sögufrægasta orðin sýningarhæf

TF-HIS í Flugsafninu Íslands á Akureyri, nánast tilbúin - þarna átti bara eftir að festa skrúfublaðið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Nýlega var lokið við að gera upp flugvélina Cessna 180, TF-HIS, á Flugsafni Íslands á Akureyri og telst hún nú sýningarhæf, að sögn Steinunnar Maríu Sveinsdóttur, safnstjóra. TF-HIS var ein fyrsta sjúkraflugvélin hérlendis og óhætt að segja að hún sé ein af sögufrægustu vélum landsins. Vélin var lengst af í eigu Flugþjónustu Björns Pálssonar flugmanns en hann var brautryðjandi í sjúkraflugi á Íslandi og víst að margir hafa átt líf sitt og heilsu honum að þakka.

Saga hjálpsemi og hugrekkis

„TF-HIS er ein af sögufrægustu flugvélum sem til eru á Íslandi. Saga hennar og Björns Pálssonar er samofin, og er ekki síst saga hjálpsemi og hugrekkis. Hún er mikilvægur hluti af flugsögunni, stendur á safninu sem varða um sjúkraflug á Íslandi og nú tekur við vinna við að gera sögu Björns Pálssonar, TF-HIS og sjúkraflugs á Íslandi skil í sýningu safnsins,“ segir Steinunn María Sveinsdóttir við Akureyri.net.

Björn hóf sjúkraflug á K.Z.III vélinni TF-KZA en hún þótti ekki henta vel, sér í lagi vegna þess hve lítil hún var og að sjúklingar urðu að sitja uppréttir. Árið 1951 keyptu Björn og Lárus Óskarsson flugvélina TF-LBP af gerðinni Auster Mk. 5 og var hún sérstaklega útbúin til sjúkraflugs með sérútbúnum sjúkrabörum og rými fyrir einn fylgdarmann. Slysavarnafélag Íslands keypti hlut Lárusar í vélinni árið 1952 og hófst þá langt og farsælt samstarf þess og Björns.

TF-LBP sannaði strax gildi sitt en þótti heldur lítil og hægfleyg og fór Björn fljótt að leita að öflugri vél. Arftakinn var flugvélin sem hér um ræðir, TF-HIS af gerðinni Cessna 180, sem einnig var með sérútbúnum sjúkrabörum og pláss fyrir einn farþega að auki.

Hið íslenska steinolíufélag!

TF-HIS var smíðuð 1953 og keypt til landsins af Birni og Slysavarnafélagi Íslands í lok ársins og kom til landsins 1954. Félagskonur í Slysavarnafélaginu hófu söfnun fyrir kaupunum, bökuðu kökur og seldu auk þess sem Hið íslenska steinolíufélag styrkti kaupin af miklum myndarskap og ber flugvélin upphafsstafi þess félags í skráningunni.

TF-HIS var tekin í notkun hér á landi í marsmánuði 1954. Hún reyndist afar vel, flaug allt að 150 sjúkraflug á ári, og á 20 ára ferli sem sjúkraflugvél lenti hún á fjölmörgum flugvöllum og lendingarstöðum um land allt til að sækja sjúklinga. Á veturna var vélin búin skíðum til lendinga við erfiðar aðstæður. Björn notaði vélina einnig til sjúkraflugs til Grænlands og sennilega er eitt hans fræknasta sjúkraflug þangað, þegar hann sótti tvær konur í barnsnauð til Scoresbysunds þann 9. maí 1957.

Cessnan, TF-HIS, í Flugsafni Íslands fyrr á árinu, áður en hún var máluð á ný í upprunalega litnum. Á innfelldu myndinn er eiginhandaráritun Björns Pálssonar flugmanns.

Árið 1960 keypti Flugþjónustan enn öflugri sjúkraflugvél, Beechcraft Twin Bonanza TF-VOR. Eftir það var TF-HIS aðallega notuð þegar aðstæður voru þannig að nýja vélin gat ekki athafnað sig.

Björn Pálsson lést á sviplegan hátt þann 26. mars 1973, þegar TF-VOR sem hann var farþegi í, hrapaði vegna gríðarlegrar ísingar yfir Búrfjöllum.

Mikill ávinningur af samstarfi

Eftir andlát Björns var TF-HIS í eigu sonar hans Sveins, sem rak áfram Flugþjónustuna. Árið 1999 seldi Sveinn vélina flugklúbbnum Þyt og unnu félagar hans mikið starf við endurnýjun vélarinnar og var hún gerð flughæf á nýjan leik.

Icelandair keypti TF-HIS af Þyt í lok árs 2014 og gaf safninu formlega þann 4. mars 2015. Hafði vélinni þá ekki verið flogið um hríð og þarfnaðist hún töluverðs viðhalds til þess að gera mætti hana sýningarhæfa en ekki stóð til að hún yrði gerð flughæf á ný.

Undanfarin ár hafa kennarar og flugvirkjanemar Tækniskólans, og þar áður Flugskóla Íslands, unnið að uppgerð TF-HIS meðan á verknámi þeirra hefur staðið í Flugsafninu. „Þátttaka þeirra í verkefninu er gott dæmi um þann ávinning sem safnið hefur af samstarfinu við Tækniskólann en árgangurinn sem lauk verknámi sínu í byrjun mars er sá níundi í röðinni og hefur vinna þeirra verið safninu ómetanleg. Það sama má segja um starfsmenn Bílaverkstæðis Hölds, en fyrirtækið gaf málunina á vélinni af miklum rausnarskap, og starfsmenn ISAVIA sem fluttu vélina til og frá verkstæðinu,“ segir Steinunn safnstjóri.

Full þakklætis

„Nú þegar þessum áfanga er náð og vélin orðin sýningarhæf, þó ýmislegt eigi enn eftir að gera, þá fyllist maður þakklæti til allra þeirra sem hafa lagt hönd á plóg. Til Sveins Björnssonar og félaga Þyts fyrir að varðveita hana og fylgihluti þann tíma sem hún var í þeirra eigu. Til Icelandair fyrir að gefa safninu vélina til varðveislu um ókomna tíð, til flugvirkjanema og kennara Tækniskólans fyrir alla þá vinnu sem þeir hafa lagt í hana, starfsmanna ISAVIA fyrir öll liðlegheitin og aðstoðina, og síðast en ekki síst til Baldvins Birgissonar, eins eigenda Hölds, sem hafði forgöngu um framlag bílaverkstæðisins, og annarra eigenda og starfsmanna þess. Þá hafa hollvinir safnsins aldrei verið langt undan og reiðubúnir að aðstoða eins og þurfti hverju sinni. Án alls þess velvilja sem safninu hefur verið sýndur við verkefnið hefði þetta aldrei verið hægt,“ segir Steinunn.

Handtökin voru mörg hjá flugvirkjanemum og öðrum sem komu að því að gera vélin upp. Hér er verkið á lokametrunum, þegar seinni vængurinn var festur á vélina.

Verklok! Skrúfublaðið sett á sinn stað og þar með var vélin „útskrifuð“ – orðin sýningarhæf. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.