Dúka og Retro Chicken kveðja Glerártorg
Nokkrar breytingar urðu á Glerártorgi á síðasta ári og enn berast fréttir af breytingum á torginu. Veitingastaðurinn Retro Chicken hvarf úr Iðunni mathöll rétt fyrir jól og verslunin Dúka mun loka dyrunum hjá sér um miðjan mánuðinn.
Eins og akureyri.net greindi frá á síðasta ári þá kvaddi tískuvöruverslunin Imperial Glerártorg síðasta sumar eftir 17 ára rekstur í verslunarmiðstöðinni og flutti sig í miðbæ Akureyrar. Þá lokaði einnig spilaverslunin Goblin í ágúst sem og kvenfataverslunin Rexín í september.
Þrír veitingastaðir farnir, einn nýr kominn í staðinn
Iðunn mathöll opnaði rétt fyrir jólin 2024 en þrír veitingastaðir hurfu þaðan strax á fyrsta rekstrarári; Fuego, La Cusine og nú síðast Retro Chicken. Í nóvember opnaði hins vegar alþjóðlega veitingakeðjan Wok to Walk veitingastað í mathöllinni þar sem Fuego var áður.

Úti er ævintýri. Félagarnir Guðmundur Geir Hannesson og Egill Anfinnsson Heinesen voru í viðtali hjá akureyri.net í apríl um veitingastaðinn Retro Chicken en hann hvarf úr mathöllinni fyrir jól.
Þá sameinuðust Steinar Waage, Ellingsen og Air í nýrri verslun sem opnaði á torginu í nóvember. Eins opnaði Dýrabær verslun á Glerártorgi í maí.