Fara í efni
Fréttir

Goblin lokar búðinni á Glerártorgi

Ásta Hrönn Harðardóttir og Þorsteinn Marinósson, eigendur Goblin á Akureyri. Mynd: Snæfríður Ingadóttir

Goblinfjölskyldan ætlar að loka verslun sinni á Glerártorgi á föstudaginn kemur, 15. ágúst. Vefverslun þeirra verður áfram opin. Fram á föstudag verður allt að 70% afsláttur af vörum í versluninni, segir í tilkynningu frá Goblin á Facebook. Meðal ástæðna fyrir því að búðinni og spilasalnum verður lokað, eru breyttar rekstraraðstæður, áskoranir á markaði og aukin erlend samkeppni, segir ennfremur í tilkynningunni.

  • Hér má lesa viðtal á Akureyri.net við hjónin Ástu Hrönn Harðardóttur og Þorstein Marinósson, eigendur Goblin á Akureyri, sem birtist í nóvember 2022, þegar verslunin og spilasalurinn voru við Ráðhústorg.
  • Hér er svo umfjöllun um Goblin, frá því þegar verslunin flutti úr miðbænum á Glerártorg. 

Tilkynning Goblin í heild sinni:

Eftir viðburðaríkt og gefandi tímabil höfum við ákveðið að loka verslun Goblin á Glerártorgi. Þetta hefur verið ótrúlegt ferðalag sem hófst af hugsjón og ástríðu fyrir því að skapa lifandi og skapandi spilasamfélag hér norðan heiða.

Upphaflega var Goblin hugsað sem vefverslun með lager á Akureyri og einstaka viðburði. Ákallið um verslun og spilasal kom fljótt í ljós – og við tókum áskoruninni. Slík aðstaða krefst mikillar vinnu og viðveru og eftir mörg ár af ástríðudrifnu starfi er nú kominn tími til að einfalda starfsemina og stíga skref aftur að upphafinu.

Ákvörðunin er því fyrst og fremst persónuleg, en breyttar rekstraraðstæður, áskoranir á markaði og aukin erlend samkeppni í vöruframboði birgja hafa einnig haft sitt að segja fyrir lítið fjölskyldufyrirtæki.

Við kveðjum þó ekki alveg – vefverslunin verður áfram opin og við munum halda áfram að styðja kjarnaviðskiptavini og spilahópana okkar með skipulögðum viðburðum og valáföngum skólanna. Fyrirkomulag þeirra verður tilkynnt síðar og við hvetjum ykkur til að skrá ykkur á póstlistann okkar til að fá nýjustu fréttir um viðburði.

Við ætlum að ljúka þessum kafla með stæl:

Allt að 70% afsláttur af öllum vörum fram til síðasta opnunardags, föstudagsins 15. ágúst.

Við erum óendanlega þakklát fyrir allt það frábæra fólk sem hefur stutt okkur og lagt hönd á plóg, komið á spilakvöld, sýnt okkur tryggð og hjálpað til við að byggja upp þetta einstaka samfélag.

Sérstakar þakkir til allra flottu krakkanna sem sótt hafa námskeið og valtíma hjá Goblin – þið hafið verið ótrúlega skemmtileg og mikilvægur hluti af lífinu hér í búðinni.