Fara í efni
Fréttir

Kveður Glerártorg eftir 17 ára rekstur

Tímarnir breytast og mennirnir með - og tískuvöruverslunin Imperial hverfur brátt af Glerártorgi. Dóri vonast þó til þess að geta haldið rekstrinum áfram annars staðar í bænum finni hann verslunarhúsnæði.

Tískuvöruverslunin Imperial, sem hefur verið starfrækt á Glerártorgi síðan 2008, kveður senn verslunarmiðstöðina. Eigandinn, Halldór Magnússon, segir óhagstætt rekstrarumhverfi og breytta stefnu eiganda Glerártorgs vera ástæðu flutninganna.

„Ég hef verið með verslun á Glerártorgi í 17 ár og hef átt þar mjög góðan tíma en einnig krefjandi tímabil, t.d. í kringum bankahrunið og covid, en hef staðið það allt af mér. Það sem hefur verið hvað allra erfiðast í mínum rekstri er að á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á rekstrarumhverfi Glerártorgs. Breyttar áherslur í rekstri verslunarmiðstöðvarinnar hafa gert það að verkum að það er orðið mjög erfitt fyrir sjálfstætt norðlenskt fyrirtæki, eins og mitt, að vera í húsinu,“ segir Dóri. Að hans mati eru ósanngjarnar kröfur fasteignafélagsins Eikar, sem er eigandi Glerártorgs, að sliga reksturinn. Stórar erlendar verslunarkeðjur hafi komið inn í húsið á kostnað minni fyrirtækja sem fái að sögn Dóra aðra meðferð og kjör hjá eigendum Glerártorgs.


Dóri í Imperial kveður Glerártorg. Hvað framtíðin ber í skauti sér er óljóst en hann vill halda áfram í verslunarrekstri á Akureyri.

Þungbært að kveðja Glerártorg

„Ég hef verið í þessum rekstri af heilindum og byggt þetta fyrirtæki upp með hjartanu, dugnaði, kjarki og ástríðu fyrir tískubransanum. Ég hef haft trú á og staðið með Glerártorgi í öll þessi ár og er þakklátur fyrir alla mína traustu viðskiptavini. Starfsskilyrðin hér í húsinu henta mér hins vegar engan veginn lengur,“ segir Dóri sem hefur staðið í deilum við eigendur Glerártorgs um hríð. Þar sem ekki hafi náðst farsæl lending í ágreiningsmálum þeirra sé hann nú á förum. Dóri vill þó ítreka að Eik hafi reynt að koma til móts við hann að einhverju leyti en alls ekki nóg miðað við að hann hafi verið traustur leigutaki í húsinu í 17 ár.

Aðspurður hvort samkeppnin frá stórum keðjum og netverslunum hafi verið þáttur í þessari ákvörðun segir Dóri svo ekki vera. „Nei, samkeppni hefur aldrei brotið mig enda er hún bara af hinu góða og reksturinn hjá mér hefur gengið mjög vel. En ég þarf að fá sömu spil og jafnræði hvað varðar rekstarútgjöld,“ segir Dóri. Hann bætir við að þessi ákvörðun að kveðja Glerártorg sé honum þungbær, enda hafi verslunarreksturinn þar verið hans líf og yndi síðastliðin 17 ár.

Gefst ekki upp

Dóri er þó alls ekki af baki dottinn og segist gjarnan vilja opna Imperial einhvers staðar annars staðar á Akureyri þar sem hann þurfi ekki að greiða allt að 2,7 milljónir með virðisaukaskatti í leigu og gjöld, eins og á Glerártorgi. Hann leitar því að varanlegu húsnæði fyrir verslunina en hyggst halda áfram með netverslun Imperial þar til húsnæði finnst. „Ég er ekki að gefast upp. Ég trúi á mikilvægi sjálfstæðra verslana í bæjarlífinu og ég vil áfram vera hluti af þeirri flóru. Mér finnst mikilvægt að það séu fjölbreyttar verslanir til staðar á Akureyri og pláss fyrir bæði stóra og smáa rekstraraðila.“

Hefur áhuga á Hofsbótinni

Fyrir ári lýsti Dóri yfir áhuga á því að sækja um lóðina Hofsbót 1 undir verslun Imperial en þegar kom í ljós að skilyrt var að sækja um báðar lóðirnar saman, Hofsbót 1 og Hofsbót 3, féll hann frá þeirri hugmynd þar sem verkefnið var of stórt fyrir hann.

Nú er Dóri hins vegar aftur kominn í viðræður við Akureyrarbæ í samstarfi við stóran byggingaverktaka. „Mér þykir mjög vænt um Akureyri og ég vil að verkefnið sem fær þennan reit verði unnið í sátt við bæjaryfirvöld, bæjarbúa og gesti bæjarins með það að markmiði að styrkja bæinn okkar og ekki síst sjálfstæða rekstraraðila. Ég sé fyrir mér að þarna verði afþreyingarhús sem sameinar verslun og þjónustu með áherslu á upplifun fyrir bæði fyrir heimamenn og gesti. Þessi reitur verður eitt af kennileitum Akureyrar og ég óska þess að við úthlutun lóðanna verði fari eftir gæðum, samfélagslegri ábyrgð og framtíðarsýn umsækjanda, ekki eingöngu út frá hæsta tilboði.“