Fara í efni
Fréttir

Dúi Þór og Eva Wium best hjá Þór

Dúi Þór Jónsson, Eva Wium Elíasdóttir, Emma Karólína Snæbjarnardóttir og Ólafur Snær Eyjólfsson. Mynd af vef Þórs.

Dúi Þór Jónsson var valinn besti leikmaður karlaliðs Þórs í körfubolta í vetur og Eva Wium Elíasdóttir best í kvennaliðinu. Þetta var tilkynnt á lokahófi körfuknattleiksdeildar í Hamri á dögunum. Frá þessu er greint á heimasíðu Þórs.

„Á lokahófinu voru samankomnir leikmenn og þjálfarar meistaraflokkanna, stjórnarmenn, sjálfboðaliðar og aðrir velunnarar, sem skemmtu sér vel og gæddu sér á góðum grillmat. Þrátt fyrir að gengi liðanna á nýafstöðnu tímabili hafi verið undir væntingum var hægt að gleðjast yfir mörgu. Bæði meistaraflokksliðin ung og efnileg og munu gera harða atlögu að úrvalsdeildarsæti á næstunni,“ segir á heimasíðu Þórs.

„Hápunktur kvöldsins var veiting viðurkenninga bestu og efnilegustu leikmanna. Í meistaraflokki kvenna var Eva Wium Elíasdóttir útnefnd besti leikmaðurinn og Emma Karólína Snæbjarnardóttir efnilegust. Í meistaraflokki karla var Dúi Þór Jónsson valinn besti leikmaðurinn og Ólafur Snær Eyjólfsson þótti efnilegastur. Loks var tekinn upp sú hefð á lokahófinu að veita leikmönnum sem spilað hafa 100 meistaraflokksleiki fyrir Þór sérstaka treyjur af þessu tilefni. Heiða Hlín Björnsdóttir, Rut Konráðsdóttir og Ragnar Ágústsson fengu umræddar treyjur að þessu sinni.“

100 leikir! Ragnar Ágústsson og Björn Sveinsson, faðir Heiðu Hlínar.