Fara í efni
Fréttir

Dagur geðheilbrigðis: Opið hús og kynning

Dag- og göngudeild geðdeildar SAk er í Seli, sem er lengst til hægri á myndinni. G-inngangur. Mynd: SAk.is.

Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn er haldinn víða um heim 10. október ár hvert. Tilgangur dagsins er að koma áleiðis vitundarvakningu og sporna gegn fordómum með því að auka fræðslu um geðheilbrigði. Í tilefni dagsins verður opið hús hjá dag- og göngudeild geðdeildar SAk frá kl. 10 og 12, auk þess sem félagar úr Geðverndarfélagi Akureyrar kynna félagið á Glerártorgi.

Starfsfólk dag- og göngudeildar geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri mun opna dyrnar og bjóða gestum að kynna sér starfsemina, tækjabúnað og aðstöðu. „Það er ákaflega mikilvægt að uppræta það tabú sem stundum hefur ríkt um geðheilbrigðismál. Þau varða samfélagið allt, enda varla til fjölskylda á Íslandi sem þau varða ekki með beinum hætti. Ekki síst þess vegna, en einnig til þess að kynna þá þjónustu sem er í boði á Sjúkrahúsinu á Akureyri, viljum við opna dyrnar og bjóða fólki að kynnast okkar metnaðarfulla starfi,“ segir Gestur Guðrúnarson, deildarstjóri dag- og göngudeildar SAk í frétt á vefsíðu SAk.
 
Dag- og göngudeildin er til húsa í Seli, sem stendur ofan og vestan við aðalbyggingu sjúkrahússins. Gengið er inn að vestan, næst Þórunnarstræti.
 
Og í tilefni dagsins munu félagar úr Geðverndarfélagi Akureyrar vera á Glerártorgi milli klukkan 14 og 18 til að kynna félagið og spjalla við gesti og gangandi um geðheilbrigðismál vítt og breitt. Geðverndarfélag Akureyrar rekur Grófina geðrækt, sem er gjaldfrjálst úrræði fyrir einstaklinga 18 ára og eldri á öllum stigum bataferlisins sem vilja bæta heilsuna með geðrækt og batavinnu gegnum hópastarf á jafningjagrundvelli.