Fara í efni
Fréttir

Breytir hugmyndinni um að búa á Akureyri

Atli Örvarsson og Anna Örvarsson á Akureyrarflugvelli í morgun. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Atli Örvarsson og Anna Örvarsson á Akureyrarflugvelli í morgun. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Jómfrúrferð akureyrska flugfélagsins Niceair var í morgun eins og áður hefur komið fram og mikill spenningur í fólki á Akureyrarflugvelli áður en þota félagsins hóf sig til flugs í fyrsta skipti frá vellinum. Leiðin lá til Kaupmannahafnar.

Atli Örvarsson, tónskáld, og Anna eiginkona hans voru á meðal farþega. Akureyri.net spurði Atla hversu spennandi hann teldi skrefið, sem stigið var í morgun og ekki stóð á svari: „Á mælikvarðanum 1 til 10 finnst mér þetta vera 10!“

Ekki hægt að leggja betra máli lið

Atli er einn hluthafa í Niceair. Hvernig kom það til? „Þetta barst í tal og mér fannst ég gæti ekki lagt neinu betra máli lið en að stofna flugfélag sem flýgur til og frá Akureyri vegna þess að ég held að þetta hafi verið næstum því síðasti hlekkurinn í keðjunni til að gera Akureyri að lítilli borg.“

Þú hlýtur að vera ánægður, stoltur og spenntur núna, þegar fyrsta ferðin er framundan?

„Já, allt þetta þrennt. Ég held þetta hljóti að vera stór dagur fyrir alla íbúa á Norður og Austurlandi. Þegar við sáum flugvélina fljúga inn fjörðinn í vikunni raungerðist þetta; að nú getum við farið hingað út á flugvöll – sum okkar gætu jafnvel farið gangandi! – og verið komin til London eða Kaupmannahafnar eftir þrjá klukkutíma eða til Tenerife sex klukkutímum seinna. Þetta gjörbreytir öllum aðstæðum fyrir einstaklinga og fyrirtæki á svæðinu og ég held að þetta breyti líka hugmyndinni um að búa á Akureyri. Ég held þetta muni opna bæinn okkar og stækka hann. Við höfum fundið fyrir því hjá söluaðilum erlendis að nú sé komin ný vara til að selja á Íslandi, norðurhluti landsins. Það hefur bara verið ein gátt inn í landið en ég held, og vona, að þetta verði lyftistöng fyrir okkur öll,“ sagði Atli Örvarsson.

_ _ _

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson og eiginkona hans, Steinunn María Sveinsdóttir.

„STÓR DAGUR“

„Þetta er stór dagur en ég anda ekki léttar fyrr en við verðum búin að fljúga í heila viku,“ sagði Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Niceair, fyrir brottför til Kaupmannahafnar í morgun. Hann hefur staðið í ströngu síðustu mánuði. Þorvaldur Lúðvík segir vel bókað í ferðir félagsins í sumar héðan að heiman en minna erlendis frá. „Haustið lítur hins vegar vel út, við reiknum með góðum bókunum inn í veturinn.“

Þorvaldur segist handviss um að félagið muni festa sig í sessi. „Fólk hefur lengi viljað þetta og það ætlar sér að láta þetta ganga upp. Fólk þjappar sér á bak við félagið.“

_ _ _

Sigurður Sigurðsson, Hólmfríður Dóra Kristjánsdóttir, Njáll Harðarson og Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir.

SVIPAÐ OG AÐ FARA Í STAÐARSKÁLA

„Þetta er ein mesta framför sem orðið hefur á landsbyggðinni áratugum saman,“ sagði Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri á Akureyri í morgun. „Ég er ekki viss um að fólk geri sér almennilega grein fyrir því hve þetta mun skipta miklu máli hér á svæðinu, ferðaþjónustu, iðnað og allt annað,“ sagði hann við Akureyri.net.

„Þegar við lendum í Köben verður það eftir svipaðan tíma og það tekur okkur að keyra í Staðarskála!“ sagði Sigurður og hló. „Þetta verður frábært fyrir fólk á Norður- og Austurlandi; ekki bara það að komast til útlanda heldur er svo mikill möguleiki á tengiflugum að það er búið að opna allan heiminn fyrir okkur.“

ROSALEG LYFTISTÖNG

Marsibil Fjóla Snæbjörnsdóttir var sama sinnis og Sigurður. Sagði reglulegt áætlunarflug beint frá Akureyri til útlanda skipta gríðarlega miklu máli. „Þetta verður rosaleg lyftistöng fyrir þetta svæði, það er ekki spurning. Ég vona að fólk verði duglegt að nýta sér þennan nýja möguleika og ég er reyndar viss um það. Umræðan í garð Niceair er mjög jákvæð. Það er alltaf gaman að því þegar fólk hefur dug í eitthvað svona; ég tek ofan fyrir fólkinu hjá Niceair.“

_ _ _

HELDURÐU AÐ ÞETTA SÉ EKKI LÚXUS?

„Mér finnst þetta stórkostlegt!“ sagði Rafn Sveinsson, áður en hann sté upp í þotu Niceair í morgun. „Þú sérð bara dæmið með mig, áttræðan karl; í staðinn fyrir að keyra einn suður, koma mér í gistingu, fara svo upp á Keflavíkurflugvöll og þvælast einn innan um þúsundir manna, getur maður komið hingað og farið beint út í næstu vél! Heldurðu að þetta sé ekki lúxus?“

Sonur Rafns og tengdadóttir hafa búið í Danmörku í 15 ár og til þeirra og tveggja barnabarna lá leiðin. „Ég fer oft til þeirra en þetta verður mikill munur. Þegar hægt er að fara beint héðan verður ekkert mál að skreppa eina helgi í afmæli! Þetta er alveg ótrúlegt.“

Rafn Sveinsson á Akureyrarflugvelli í morgun.