Fara í efni
Fréttir

Mörg hundruð manns urðu frá að hverfa

Umfjöllun Morgunblaðsins eftir vígslu Akureyrarkirkju 1940.

Í dag eru 80 ár frá því Akureyrarkirkja á Grófargilshöfða var vígð. Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, sem teiknaði kirkjuna kvað upp úr með að þetta væri fegursta kirkjustæði sem hann hefði séð, bæði hérlendis og erlendis, eins og séra Svavar Alfreð Jónsson rifjaði upp í grein hér á Akureyri.net um helgina. Deilur risu í bænum um staðsetninguna – en gera má ráð fyrir að enginn Akureyringur mótmæli í dag umsögn húsameistara!

Mikið var um dýrðir sunnudaginn 17. nóvember 1940 og töluvert fjallað um athöfnina í blöðunum. Morgunblaðið lagði drjúgt pláss undir frásögn af kirkjuvígslunni á þriðjudeginum. Í inngangi frásagnar segir: „Frjettaritari Morgunblaðsins á Akureyri sendi blaðinu í gær með flugvjelinni eftirfarandi frásögn af vígsluathöfninni.”

Greinir fréttaritarinn, Hallgrímur Valdemarsson, svo frá því að athöfnin hófst klukkan 12.30 með því að biskup, herra Sigurgeir Sigurðsson, og viðstaddir prestar mættust í gömlu kirkjunni í Fjörunni. „Bað þar biskup stutta bæn og sungu viðstaddir sóknarnefndarmenn sálmvers. Tóku þeir síðan muni kirkjunnar og gengu í skrúðgöngu frá kirkjunni út Aðalstræti og Hafnarstræti og upp hinar nýju tröppur frá Kaupvangsstræti, til nýju kirkjunnar. Komu þeir þar kl. 1. Höfðu þeir áður skrýðst fullum skrúða, biskup og vígslubiskup, en sex prestar báru rykkilín.“

Séra Sigurður ávarpaði söfnuðinn fyrstur prestvígðra

Dagur kom út á fimmtudegi, 21. nóvember. Þar kemur fram að séra Sigurður Stefánsson á Möðruvöllum las bæn í kórdyrum „og var því hinn fyrsti prestvígðra manna sem ávarpaði söfnuðinn í hinni nýju kirkju. Biskupinn, herra Sigurgeir Sigurðsson, flutti vígsluræðu en vígslubiskup séra Friðrik J. Rafnar, predikun.“

Óhætt er að segja að Akureyringar hafi sýnt vígslunni mikinn áhuga. Alþýðumaðurinn sagði: „Óhemju mannfjöldi, á okkar mælikvarða, sótti kirkjuna. Rúmlega 1400 voru taldir út úr henni en mörg hundruð urðu frá að hverfa.“ Vert er að geta þess að bæjarbúar voru liðlega 5000 á þessum tíma.

Blöðin voru sammála um að samkoman hefði verið hátíðleg, „og ríkti hátíðarkyrrð í kirkjunni allan tímann, þótt fullur helmingur kirkjugesta yrði að standa í lítt bærilegri þröng á fjórða klukkutíma,“ sagði í Alþýðumanninum.

Rannveig og Vilhjálmur gáfu orgel

Í boði sem sóknarnefnd hafði um kvöldið á Hótel Gullfossi var lesið bréf frá hjónunum Rannveigu og Vilhjálmi Þór, þar sem þau lýsa yfir að þau gefi kirkjunni Hammond-rafmagnsorgel í minningu foreldra sinna og í þakklætisskyni fyrir fræðslu og þann undirbúning sem þau fengu undir lífið á Akureyri. „Orgel þetta er tiltölulega ný amerísk uppfynding, og verður það fyrsta af þessari tegund, sem kemur hingað til lands,“ sagði í Alþýðumanninnum. Vilhjálmur hafði lengi verið framkvæmdastjóri Kaupfélags Eyfirðinga en var nýorðinn bankastjóri Landsbankans.

Hitað upp fyrir jarðarfarir

Alþýðumaðurinn færði lesendum sínum eftirfarandi skilaboð frá kirkjuverðinum þann 21. nóvember: „Kirkjuvörðurinn við nýju kirkjuna, Kristján Sigurðsson smiður biður þess getið, að hann óski eftir að þeir, sem ætli að nota kirkjuna til jarðarfara, tali við hann ekki síðar en degi áður en jarðað verður, vegna upphitunar á kirkjunni. Símanúmer 276.“

Jafnframt segir í Alþýðumanninum þennan dag, 21. nóvember: „Fyrsta jarðarförðin frá nýju kirkjunni fór fram í dag. Voru það jarðneskar leifar Valgerðar Jónsdóttur, Lækjargötu 9, sem veittist sá heiður að vera fyrst bornar í kirkjuna eftir vígslu hennar.” Svo mörg voru þau orð.

Ljósmynd: Þórhallur Jónsson