Fara í efni
Fréttir

Hjartsláttur heimsins

Um hátíðarnar birtir akureyri.net predikanir presta við Akureyrarkirkju og Glerárkirkju.

Séra Jóhanna Gísladóttir predikaði við aftansöng í Grundarkirkju í Eyjafjarðarsveit í kvöld, aðfangadagskvöld.

Mynd: Sigurður Ægisson

Friður Guðs sé með okkur öllum á þessu heilaga kvöldi.

Það var á mildum síðsumardegi seinni partinn í ágúst sem fermingarbörnin í Eyjafjarðarsveit settust inn í litla kapellu í Vatnaskógi í Hvalfjarðarsveit. Rýmið í kapellunni var afar lítið og rúmaði vart hópinn, það var þröngt á þingi á bekkjunum og súrefni af skornum skammti.

Við vorum þarna stödd - ég og ungmennin - í helgarferð með fleiri fermingarhópum úr Eyjafirði. Ferðin markaði upphaf fræðsluvetrarins og okkur prestunum var mikið í mun að nýta tímann sem best, komast yfir sem mest af fræðslu - og hvar er best að hefja söguna um líf og boðskap Krists en einmitt með fæðingu hans. Það var í það minnsta skoðun hinna prestanna, að hvergi væri betra að hefja för en í fjárhúsinu í Betlehem forðum daga þar sem ómálga barn fæddist ungu og fátæku pari en átti eftir að breyta heiminum til hins betra.

Ég sjálf var hins vegar efins fyrirfram að heppilegt væri að taka jólin fyrir í upphafi fræðslunnar. Ég vildi „spara“ jólin til jóla, ef svo má að orði komast, vildi að börnin upplifðu jólasöguna frekar sem hápunkt en upphaf.

En þar sem enginn var sammála mér - þá hóf ég mína fræðslu í kapellunni í skóginum á því að óska börnunum gleðilegra jóla þegar þau gengu inn, sem þeim fannst furðuleg kveðja í ágústmánuði, og undruðust svo enn meir þegar ég hóf að lesa fyrir þau jólaguðspjallið.

En ólíkt því sem ég hafði haldið, þá líkt og fyrir eitthvert kraftaverk, myndaðist grafarþögn þegar ég hóf lesturinn á jólaguðspjallinu, þessari merku sögu sem þau könnuðust flest við að hafa heyrt áður - og í framhaldinu bað ég krakkana að loka augunum og ímynda sér að þau sætu í einhverri kirkjunni hérna heima í Eyjafjarðarsveit á jólum - öll áttu þau að sjá fyrir sér sína eigin kirkju - ímynda sér að þau væru klædd í betri fötin og sjá kórinn fyrir sér að syngja Heims um ból. Væri ég betri söngkona en ég er þá hefði ég ef til vill bætt um betur og brostið í söng á þessum tímapunkti en börnin sluppu sem betur við þann gjörning.

En eitt augnablik var hátíðleikinn áþreifanlegur síðsumars í þessu örlitla heilaga rými - og breytti þá engu fuglasöngurinn úti við eða græni gróðurinn sem umvafði kapelluna fallegu. Eitt augnablik var veturinn genginn í garð, Jesúsbarnið fætt í jötu enn á ný og englar sungu hástöfum barninu til dýrðar.

- - -

En nú eru jólin raunverulega gengin í garð og engin þörf að halla aftur augum og notast við ímyndunaraflið. Hugsið ykkur bara hvað við erum lánsöm að fá að lifa þessa merku friðarhátíð enn á ný. Að fá tækifæri til að tengjast barninu innra með okkur sem hreifst með hátíðleikanum forðum, að fá að dást að fallegum jólaskreytingum, heyra sálma sem minna okkur á liðna tíð, fá tækifæri til að gleðja ungviðið í lífum okkar með einum eða öðrum hætti og eiga vonandi sem flest samverustundir með fólki sem okkur þykir vænt um.

Kristið fólk um heim allan hefur gengið samferða Maríu mey á aðventunni og undirbúið komu frelsarans í þennan heim, og vonandi hafa sem flestir fundið leiðir til að kyrra huga og hjörtu, haft tækifæri til að tengjast æðri mætti og vonandi fundið fyrir barnslegri eftirvæntingu stundarkorn.

Það er misdjúpt á barnið innra með okkur, sumum nægir að finna lyktina af smákökunum hennar ömmu í ofninum eða skötunni á Þorlák, að heyra kveðjurnar í útvarpinu eða verða vitni að spennu og gleði ungviðsins í aðdraganda hátíðarinnar.

En aðrir þurfa að grafa dýpra til að finna fyrir hátíðleikanum. Einhverjir myndu kannski segja mér að þeir hafi enga þörf eða löngun til að upplifa barndóminn á nýjan leik. En það er ástæða fyrir því að við köllum þennan tíma hátíð barnanna. Það er í raun alls ekki vegna barnanna í lífum okkar sem njóta gjafa og gleði og jólasveina og nammipoka. Þó hamingja barna standi okkur auðvitað nærri. Nei þessi hátíð er ekki síður ætluð barninu innra með okkur sjálfum.

Jesús sagði fólkinu sem leitaði til hans að hver sem ekki tekur við Guðs ríki eins og barn, mun alls ekki inn í það komast.

það var ekki hótun eða dulmál af einhverju tagi, engin útilokun - heldur spurning um hjartalag. Til þess að nálgast Guð þá þurfum við að leggja traust okkar á hann eins og við gerðum sem börn þegar við trúðum enn á að hið góða sigraði alltaf að lokum, að við þurfum að leyfa okkur á trúa á eitthvað okkur æðra sem við þó skiljum þó ekki alveg. Og sætta okkur við að við munum aldrei skilja það til fullnustu.

Því þannig, og einungis þannig, finnum við fyrir hjartslætti heimsins. Hjartslætti Guðs.

- - -


Við veltum kannski fyrir okkur hvers vegna það skiptir einhverju máli fyrir okkur - Íslendinga árið 2025 - að fyrir tvö þúsund árum síðan hafi barn fæðst fyrir botni Miðjarðarhafs sem sagður var sonur Guðs?

Hvernig getur það haft áhrif á líf okkar enn í dag?

Ólíkt flestum valdhöfum í fortíð og nútíð þá mætti Guð okkur ekki sem konungur með drottnunarvald heldur sem brothætt mannvera sem var háð elsku og og kærleika og vináttu og hvíld og næringu og frið og uppörvun.

- Mannvera sem reiddist, fann til uppgjafar og þreytu, skildi oft ekki umhverfi sitt og kaus frekar að umgangast hin útskúfuðu en hina valdameiri.

- Mannvera sem með auðmýkt sinni breytti takti mannkynssögunnar, lagði línurnar fyrir það samfélag sem við tilheyrum í dag, þau gildi sem við viljum standa vörð um.

- Gildi eins og að hvert mannslíf er verðmætt.

- að okkur bera að gefa meira af okkur en við fáum gefið.

- að við ættum að leitast við að fyrirgefa það sem við mögulega getum fyrirgefið,

- og vera tilbúin að rétta fram hjálparhönd þegar við höfum tækifæri til.

- Að tilgangur veru okkar hér á jörð er ekki að sigra heiminn heldur að þjóna honum.

Og öllum dyggðum æðri er kærleikurinn -  sem mun sigra á lokum ef við aðeins leyfum okkur að trúa.

Og ekki ef - heldur þegar - heimurinn gengur í takt og sameinast í þessum kærleik þá munum við heyra hjartslátt heimsins slá að nýju. Hjartslátt Guðs.

Fæðing Jesú er ekki einungis trúarboðskapur heldur mannúðarboðskapur, ætlaður öllum sama af hvað hvað bakgrunni, trú, kyni eða kynhneigð. Óháð öllum mannlegum stimplum og breytum.

Og því eru jólin þessi frátekna stund - þetta logn í storminum - þetta andrými sem við sköpum okkur til að skerpa á skilningarvitunum og hafa uppi á barninu í vitund okkar.

Því við þörfnumst Guðs alla daga, ekki bara á kirkjubekknum á jólum. Við þörfnumst þess að hann fylli hjörtu okkar von og gleði að nýju, sannfæri okkur að allt fari vel að lokum. Að hann gangi okkur samferða nú sem áður.

---


En aftur í Vatnaskóg. Jólaguðspjallið sem fermingarbörnin hlustuðu á í ágúst og við endurtökum hér í kvöld, er helgisaga sem hefur fylgt kristnu fólki frá tímum Krists. Endursögð aftur og aftur, kynslóð eftir kynslóð.

Og skiptir þá einu hvort við erum stödd í lítilli kapellu í ágúst eða kirkju á jólum.

Fæðing jesúbarnsins snertir við kjarna okkar, mennskunni okkar, bægir burtu myrkrinu innra með okkur. Ekki síst á jólum þegar skilin milli himins og jarðar opnast öllum leitandi hjörtum og hjartsláttur heimsins slær í takt eitt augnablik.

Því nú er hið heilaga mitt á meðal okkar. Hjartsláttur heimsins - já það er Guð.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.