Fara í efni
Fréttir

Arna Sif jafnaði á lokasekúndunni!

Innilegur fögnuður á lokasekúndunni eftir að Arna Sif Ásgrímsdóttir jafnaði. Arna Kristinsdóttir faðmar fyrirliðann, til vinstri er Ísfold Marý Sigtryggsdóttur og fjær Shaina Faiena Ashouri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði knattspyrnuliðs Þórs/KA, tryggði liðinu eitt stig í Pepsi Max deild Íslandsmótsins þegar hún jafnaði, 2:2, á síðustu sekúndu leiksins gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í kvöld á Þórsvellinum (Salt Pay vellinum).

Það er ekkert grín að lenda undir gegn meisturunum, hvað þá í tvígang eins og Þór/KA gerði í kvöld, en þrátt fyrir mótlætið gáfust Stelpurnar okkar aldrei upp. Blikarnir voru betri í fyrri hálfleiknum en í þeim seinni hafði lið Þórs/KA í fullu tré við meistarana og verðskuldaði stigið.

Ekki var mikið um færi í seinni hálfleik og vonin virtist orðin afar veik þegar komið var fram í uppbótartíma. En ævintýrin gerast enn og Þór/KA jafnaði með næst síðustu spyrnu leiksins! Heimamenn fögnuðu innilega en gestirnir voru skiljanlega ákaflega niðurdregnir. 

  • 0:1 (5. mínúta) Agla María Albertsdóttir fékk boltann á vinstri kantinum, lék á Huldu Karen bakvörð og sendi fyrir markið - en boltinn sveif efst í hornið fjær.
  • 1:1 (8.) Harpa markvörður spyrnti langt frá markinu, Margrét Árnadóttir skallaði boltann aftur fyrir sig, inn fyrir vörnina, og Colleen Kennedy kom eins og eldibrandur - stakk varnarmennina hreinlega af - og skoraði framhjá markverðinum, sem kom út á móti.
  • 1:2 (23.) Eftir hornspyrnu Þórs/KA barst boltinn út fyrir teig til Örnu Sifjar Ásgrímsdóttur, hún varð fyrir því óláni að skrika fótur á rennblautum vellinum, Blikarnir náðu boltanum og brunuðu fram. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir fékk boltann inn fyrir vörnina frá Hildi Antonsdóttur og skoraði án þess að Harpa markvörður kæmi vörnum við.
  • 2:2 (90. + 4) Þór/KA fékk horn, Jakobína Hjörvarsdóttir sendi fyrir markið og eftir klafs í teignum barst boltinn inn í markteig þar sem Arna Sif Ásgrímsdóttir var fljótust að hugsa og skoraði af harðfylgi. Markið gerði Arna með næst síðustu spyrnu leiksins, því strax og leikmaður Breiðabliks tók miðju var leikurinn flautaður af. Hér má sjá myndasyrpu af markinu. 

Vert er að nefna nýr leikmaður Þórs/KA, bandaríski framherjinn Shaina Ashouri, kom boltanum í mark Breiðabliks í fyrri hálfleik, þegar staðan var enn 1:1 en var dæmd rangstæð. Fulltrúi Akureyri.net var við endalínu vallarins og því ekki í aðstöðu til að meta hvort úrskurðurinn var réttur, en Aron Elvar Finnsson, sem lýsti leiknum á mbl.is, var viss í sinni sök: „Þarna voru heimakonur rændar! Shaina fær boltann í gegn og Telma kemur út á móti. Shaina hins vegar vippar boltanum frábærlega yfir Telmu og í markið en er flögguð rangstæð. Þetta var algjörlega í línu við blaðamannastúkuna og þetta var hreinlega rangur dómur!“ Svo mörg voru þau orð. Rétt er þó að taka fram að Egill Arnar Sigurþórsson, dómari, stóð sig með prýði í kvöld þegar á heildina er litið, að mati Akureyri.net.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.