Fara í efni
Fréttir

Arna og félagar leika ekkert í janúar

Leikmenn Þórs/KA fagna marki síðasta sumar. Arna Sif Ásgrímsdóttir, fremst á myndinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Öllum leikjum janúarmánaðar í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í Skotlandi  hefur verið frestað. Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, var á dögunum lánuð til Glasgow City, besta lið Skotlands. Þrír leikir voru á dagskrá hjá Glasgow í mánuðinum, gegn Celtic, Forfar Farmington og Motherwell.

„Ég hef ekkert spilað ennþá. Fyrsti leikur átti að vera á sunnudaginn,“ sagði Arna Sif við Akureyri.net í dag.

Hún er afar sátt við allt nema að leikjunum hafi verið frestað, en auðvitað þýðir ekki að fást um það, enda ástandið slæmt á Bretlandi varðandi Covid. 

„Mér líst mjög vel á allt hérna. Þetta er frábært lið og margir mjög góðir leikmenn. Gæðin eru meiri en ég bjóst við og æfingarnar góðar.“ Arna Sif segir liðið hafa æft af fullum krafti en óljóst sé hvort það breytist.