Akureyringar geta vel við veðrið unað

Verslunarmannahelgi fram undan og spurt er: Hvar verður besta veðrið? Akureyringar hafa yfirleitt ekki átt í teljandi vandræðum með að svara þeirri spurningu. En hvað segja veðurfræðingar?
Íslendingar eiga það oft til í sumarfríum sínum að elta veðrið, eins og sagt er. Sækja þá í þau svæði þar sem von er á sól og blíðu, en þegar skipuleggja á nokkra daga fram í tímann getur verið gott að þekkja veðurfræðing, eða bara heimsækja nokkra veðurvefi.
Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands fram á sunnudag verður veðrið nokkuð breytilegt, en Akureyringar og gestir ættu að geta unað glaðir við sitt veður að mestu leyti. Að vísu von á einhverri smá vætu síðdegis einhverja daga, en er það ekki bara gott fyrir gróðurinn?
Besta veðrið vísar á besta veðrið
Blíðviðrissækjar geta líka farið inn á vefinn bestavedrid.is. Þar er gagnvirkt kort sem sýnir grænan punkt þar sem besta veðrið er samkvæmt nýjustu veðurathugunum hverju sinni og gulan eða gula punkta þar sem næstbesta veðrið er. Þar er líka hægt að sjá nokkra daga fram í tímann og halda svo bara af stað í átt að græna punktinum. Þegar þetta er skrifað hefur norðausturhornið vinninginn.
Staðan þegar þessi frétt var skrifuð. Bestavedrid.is vísar á besta veðrið, annars vegar samkvæmt veðurathugunum og hins vegar veðurspám næstu daga. Bláu punktarnir sýna veðurstöðvar, gulu sýna næstbesta beðrið og græni sýnir besta veðrið. Skjáskot af bestavedrid.is.
Veðurvefurinn Blika.is gefur Akureyringum góð fyrirheit um næstu daga, eins og sjá má á skjáskotinu hér að neðan.
Best norðaustanlands
Veðurspá Veðurstofu Íslands fyrir næstu daga hljómar þannig
- Þriðjudagur: Hægt vaxandi suðaustanátt, víða 8-13 m/s og rigning sunnan- og vestanlands. Dálítil væta með köflum norðaustanlands, en rigning annað kvöld. Hiti 12 til 20 stig, hlýjast fyrir norðan..
- Miðvikudagur: Suðvestan 3-10 m/s og skúrir, en yfirleitt þurrt og bjart á Austurlandi. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast austanlands.
- Fimmtudagur: Hæg vestlæg átt, skýjað með köflum og stöku skúrir. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Suðausturlandi.
- Föstudagur: Hæg suðlæg eða breytileg átt. Stöku skúrir. Hiti 10 til 18 stig.
- Laugardagur: Suðaustan 10-18 m/s og rigning sunnan- og austanlands en mun hægari um kvöldið og skúrir. Rigning síðdegis norðaustanlands. Hiti 10-15 stig.
- Sunnudagur: Útlit fyrir austan og suðaustanátt, 5-13 m/s. Rigning sunnan- og vestanlands en þurrviðri norðaustantil. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðaustanlands.
Myndræn spá fram undir verslunarmannahelgi í nokkrum landshornum. Skjáskot af gottvedur.is.
Hér má sjá myndræna spá fyrir norðausturhluta landsins síðdegis næstu daga, fram á laugardag. Skjáskot af vedur.is.