Fara í efni
Fréttir

Af þolinmæði – og B-gangi fyrir Framsókn!

Bragi Sigurðsson heimilislæknir sýnir Willum heilbrigðisráðherra hið innrammaða listaverk á stofu sinni; vísuna góðu eftir Hjálmar heitinn Freysteinsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Gleðin var við völd í gær þegar nýja heilsugæslustöðin í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð á Akureyri var formlega tekin í notkun. Mikil ánægja er með hið glæsilega húsnæði og andrúmsloftið í gær með þeim hætti að auðvelt var að gera að gamni sínu. 

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, var viðstaddur eins og Akureyri.net greindi frá í gær og var ekki lengi að bregða á leik þegar hann gekk inn á stöðina og sá stafinn B áberandi á grænum fleti. B er bókstafur Framsóknarflokksins sem kunnugt er og litur flokksins grænn. Óumflýjanlegt var að taka mynd af ráðherranum við innganginn að þessum sérstaka gangi fyrir Framsóknarmenn, eins og gantast var með. 

„Ég var ævintýralega peppaður þegar ég sá þetta, er auðvitað búinn að fá mynd – og ég trúi því að þetta hafi verið gert bara fyrir mig!“ sagði ráðherrann og hló, þegar hann ávarpaði viðstadda.

Þolinmæðin ...

Margir Akureyringar hafa lengi verið án heimilislæknis, eins og oft hefur verið fjallað um í fréttum, og yfirleitt tekur langan tíma að fá tíma hjá einum slíkum þegar einhvers konar kvillar hrjá bæjarbúa.

Þolinmæði þrautir vinnur allar, segir máltækið, og stundum hvarflar það að manni að þar sé um að ræða lykilorð þegar kemur að þjónustu í heilbrigðisþjónustunni. Hjálmar heitinn Freysteinsson, heimilislæknir á Akureyri var mikill hagyrðingur og húmoristi, og þegar Willum Þór skoðaði sig um á heilsugæslustöðinni í gær kom hann m.a. við á stofu Braga Sigurðssonar heimilislæknis sem dró fram myndaramma og sýndi ráðherranum. Þar mátti sjá eftirfarandi vísu Hjálmars:

Af langri reynslu lært ég hef
þá læknisfræði
að það sem bætir þrálátt kvef
er þolinmæði

Einföld vísa sem ber hnyttni Hjálmars gott vitni. Mikill og lúmskur húmor; reyndar hárrétt þegar kvef á í hlut en verður vonandi ekki leiðarstef þjónustunnar í heild ...