Handbolti: Seiglusigur hjá KA/Þór gegn Fram
KA/Þór gerði góða ferð suður til Reykjavíkur þegar liðið heimsótti Fram í 6. umferð Olísdeildar kvenna. Eftir jafnan fyrri hálfleik og sveiflukenndan seinni hálfleik voru það norðankonur sem fögnuðu að lokum naumum sigri, 30:29.
KA/Þór byrjaði betur og var með forystuna framan af leik. Munurinn var orðinn fjögur mörk eftir 10 mínútna leik en þá fóru heimakonur að saxa á forskotið. Þær komust síðan yfir og leiddu síðustu 10 mínútur hálfleiksins. Munurinn var 2 mörk í leikhléi, 18:16, eftir að Arna Sif í marki Fram varði víti þegar leiktímanum var lokið. Arna varði reyndar þrjú af fjórum vítaköstum sem KA/Þór fékk.
Framarar fóru betur af stað í seinni hálfleik og bættu í forskotið. Þær náðu mest fimm marka forystu en um miðjan hálfleikinn gjörbreyttist leikurinn. Framstúlkur skoruðu ekki mark í 10 mínútur samfleytt á meðan KA/Þór skoraði sjö. Staðan breyttist úr 23:18 fyrir fram í 25:23 fyrir KA/Þór. Norðankonur spiluðu mjög skynsamlega og voru klókar í sínum leik og flest gekk upp hjá þeim. Þær bættu enn í forystuna og þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum var KA/Þór 29:25 yfir.
Jöfnunarmark Fram kom sekúndubroti of seint
En þá fóru hlutirnir loksins að ganga á ný hjá Fram og þær minnkuðu muninn í eitt mark þegar rúm mínúta var eftir. Lokakaflinn var æsispennandi, KA/Þór missti boltann og Framarar náðu síðustu sókn leiksins. Þær voru örlítið of svifaseinar að koma sér í færi og jafna leikinn. Færið kom reyndar og jöfnunarmarkið líka en því miður fyrir þær kom það sekúndubroti of seint og taldi því ekki. Eins marks sigur KA/Þórs í höfn en naumara gat það ekki orðið.
Eftir tvo tapleiki í röð er KA/Þór aftur komið á sigurbraut og er í 2.-4. sæti deildarinnar með 8 stig, ásamt ÍR og ÍBV. Næsti leikur liðsins er laugardaginn 1. nóvember þegar stelpurnar fara aðra ferð suður yfir heiðar og mæta Stjörnunni.
Mörk KA/Þórs: Susanne Denise Pettersen 8, Trude Blestrud Hakonsen 5, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 4, Anna Þyrí Halldórsdóttir 3, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 3, Tinna Valgerður Gísladóttir 3 (1 víti), Lydía Gunnþórsdóttir 2, Unnur Ómarsdóttir 2.
Varin skot: Matea Lonac 10.
Mörk Fram: Harpa María Friðgeirsdóttir 11, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 6, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 5, Hulda Dagsdóttir 3 (2 víti), Sóldís Rós Ragnarsdóttir 2, Birna Ósk Styrmisdóttir 1, Valgerður Arnalds 1.
Varin skot: Arna Sif Jónsdóttir 8 (3 víti), Ethel Gyða Bjarnasen 4.