Fara í efni
Þór

Handbolti: Herslumuninn vantaði hjá KA í Eyjum

Bjarni Ófeigur Valdimarsson, sem hér skorar úr víti gegn ÍR nýlega, skoraði hvorki fleiri né færri en 16 mörk gegn ÍBV og nýtti m.a. öll 8 vítaköst sín. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

KA heimsótti ÍBV í 8. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í dag og hefði með sigri í leiknum náð toppliðum Aftureldingar og Hauka að stigum. Heimamenn voru hins vegar ívið sterkari í leiknum og unnu að lokum nauman 36:34 sigur. Bjarni Ófeigur Valdimarsson átti enn einn stórleikinn fyrir KA og skoraði 16 mörk, næstum helming marka liðsins.

Vestmanneyingar skoruðu fyrsta mark leiksins og voru með forystuna nánast allan fyrri hálfleikinn. Þeir náðu mest þriggja marka forskoti en KA náði þó að jafna 14:14 þegar fimm mínútur voru eftir af hálfleiknum. Heimamenn sigu þá aftur framúr og höfðu eins marks forystu í leikhléi, 18:17.

Herslumuninn vantaði í lokin

Framan af seinni hálfleik var ÍBV áfram með 1-2 mörk í forskot en þegar líða fór á hálfleikinn jókst forystan og var orðin fimm mörk um hálfleikinn miðjan. Með harðfylgi náði KA að minnka muninn smátt og smátt og Giorgi Dikhaminjia minnkaði muninn í eitt mark, 34:33, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Bruno Bernat varði vítakast frá Eyjamönnum í næstu sókn og allt leit út fyrir að leikurinn væri að snúast KA í hag. En heimamenn náðu að halda haus og verja forskotið síðustu mínúturnar. Lokatölur 36:34 og markaskorun seinni hálfleiks var nákvæmlega sú sama og í þeim fyrri.

Að 8 umferðum loknum er KA í 3.-5. sæti deildarinnar með 10 stig, ásamt ÍBV og Val. Næsti leikur liðsins er föstudaginn 7. nóvember, þegar Stjarnan kemur í heimsókn í KA-heimilið.

Mörk KA: Bjarni Ófeigur Valdimarsson 16 (8 víti), Giorgi Dikhaminjia 5, Morten Linder 4, Arnór Ísak Haddsson 3, Logi Gautason 3, Magnús Dagur Jónatansson 2, Jens Bragi Bergþórsson 1.

Varin skot: Bruno Bernat 7 (2 víti), Guðmundur Helgi Imsland 2.

Mörk ÍBV: Andri Erlingsson 11, Elís Þór Aðalsteinsson 11 (7 víti), Jakob Ingi Stefánsson 4, Kristófer Ísak Bárðarson 4, Sveinn José Rivera 4, Gabriel Martinez Róbertsson 1, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1.

Varin skot: Morgan Goði Garner 5.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz

Staðan í deildinni