Fara í efni
Þór

Öruggur sigur Þórs og afar mikilvægur

Oddur Gretarsson hefur leikið gríðarlega vel með Þórsurum undanfarið. Selfyssingurinn hefur hér náð tangarhaldi á honum en sá hlær best sem síðast hlær; Oddur hló að leikslokum í gær. Mynd: Ármann Hinrik

Þórsarar unnu afar mikilvægan sigur á Selfyssingum, 31:28, á heimavelli í gærkvöld í Olísdeildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Þetta var annar sigur Þórsara í deildinni í vetur, í átta leikjum; þeir unnu ÍR-inga í fyrstu umferð og höfðu nælt í stig með jafnteflum við FH á útivelli og Stjörnuna heima. Eru nú komnir með sex stig og fóru upp fyrir Selfyssinga sem eru með fimm stig en ÍR-ingar eru neðstir með eitt.

Þórsarar náðu frumkvæði snemma leiks í gær, náðu þriggja marka forystu þegar tæpar 10 mínútur voru liðnar en gestirnir náðu að jafna áður en yfir lauk; staðan var 15:15 í hálfleik.

Leikurinn var áfram í jafnvægi framan af seinni hálfleik en Þórsarar náðu síðan yfirhöndinni á ný og þegar rúmar 10 mín. voru liðnar af hálfleiknum voru þeir komnir fimm mörkum yfir, 22:17. Þeir höfðu tögl og hagldir og þegar 10 mín. voru eftir var forystan átta mörk, 28:20; öruggur sigur í sjónmáli og sigurinn var öruggur og sannfærandi þegar upp var staðið þrátt fyrir að Þórsstrákarnir hafi gefið óþarflega mikið eftir á lokamínútunum, því aðeins munaði þremur mörkum í lokin. 

Kári Kristján Kristjánsson skorar af alkunnri harðfylgi seint í leiknum í gær. Hann gerði tvö mörk í leiknum.

Brynjar Hólm Grétarsson sem hefur verið frábær í Þórsliðinu í vetur, bæði í vörn og sókn, meiddist þegar um sjö mínútur voru eftir og tók ekki frekari þátt í leiknum. Lenti þá í samstuði við einn gestanna og voru Þórsarar afar óhressir með Selfyssinginn í það skipti; Brynjar lá um stund og skiptust leikmenn liðanna hressilega á skoðunum á meðan stumrað var yfir honum. Engum var meint af þeim fundahöldum og vonandi varði Brynjari ekki alvarlega meint af árekstrinum því Þórsarar mega illa án hans vera. Örvhenta skyttan Hafþór Már Vignisson, sem hóf mótið af miklum krafti, hefur verið frá vegna meiðsla undanfarið, hans er sárt saknað en vonandi verður Þórssveitin fullskipuð á ný í næsta leik eftir hálfan mánuð, gegn Haukum í Hafnarfirði föstudagskvöldið 7. nóvember.

Oddur Gretarsson lék afar vel í gær og hefur raunar farið á kostum undanfarið, fyrst í vinstra horninu en Oddur hefur meira og minna leikið sem leikstjórnandi í síðustu leikjum með góðum árangri. Samherjarnir njóta góðs af yfirsýn Odds og lúmskum sendingum; ekki er síst gaman að fylgjast með samvinnu hans og línumannanna, Kára Kristjáns og Þórðar Tandra. 

Aron Hólm Kristjánsson sloppinn í gegnum vörn Selfyssinga í gær. Hann gerði þrjú mörk í leiknum.

Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 8, Oddur Gretarsson 8 (þar 5 víti), Aron Hólm Kristjánsson 3, Hákon Ingi Halldórsson 3, Igor Chiseliov 2, Kári Kristján Kristjánsson 2, Þórður Tandri Ágústsson 2, Þormar Sigurðsson 2, Halldór Kristinn Harðarson 1.
Varin skot: Nikola Radovanovic 14 (34%).

Mörk Selfoss: Hannes Höskuldsson 7 (þar af 1 víti), Anton Breki Hjaltason 5, Hákon Garri Gestsson 4 (þar 1 víti), Jason Dagur Þórisson 4, Gunnar Kári Bragason 2, Tryggvi Sigurberg Traustason 2, Elvar Elí Hallgrímsson 1, Haukur Páll Hallgrímsson 1, Jónas Karl Gunnlaugsson 1, Sölvi Svavarsson 1.

Tölfræðin frá HBStatz

Staðan í deildinni

Brynjar Hólm Grétarsson fór meiddur af velli þegar sjö mínútur voru eftir. Hann liggur hér á gólfinu eftir samstuð við einn Selfyssinganna og eins og sjá má á Þórsurunum voru þeir ekki ánægðir með þátt gestsins í það skipti.