Fara í efni
Svavar Alfreð Jónsson

Rakettan

Á bernskuheimili mínu var gamla árið kvatt og nýju fagnað án bosmamikilla flugelda eða stórra tívolíbomba. Gjarnan kveiktum við á stjörnublysum áður en við kysstumst í tilefni áramótanna og drukkum heitt súkkulaði með þeyttum rjóma undir áramótaávarpi Andrésar Björnssonar í svarthvíta Tandberg sjónvarpinu okkar.

Eitt gamlárskvöld var skotgleði fjölskyldunnar þó meiri en venjulega. Karli föður mínum hafði verið gefin spikfeit raketta. Þegar að því kom að kveikja í ferlíkinu var það svo ógnvekjandi að enginn þorði að eiga við það með eldfærum uns frændi okkar sem var gestur hjá okkur það kvöldið reyndist svo hugaður að hann bauð sig fram til verksins.

Ógnarlöngu priki skoteldsins var rennt niður í vallasflösku sem tæmd hafði verið fyrr um kvöldið og stungið á kaf niður í snjóruðning við götuna. Frændi gekk glaðbeittur og kannski ekki alveg allsgáður að skotstað og bar glóandi fánavindil að digrum kveiknum. Við hin fylgdumst spennt með og héldum niðri í okkur andanum.

Kveikurinn tendraðist og frændi flýtti sér niður af ruðningnum til okkar. Jafnskjótt hófst hviss í rakettunni og hún fór að ókyrrast í flöskustútnum. Sívaxandi hvinurinn og neistastrókurinn sýndi þá heitu þrá rakettunnar að að hefja sig til flugs enda er náttúra þeirra sú. Mikið þurfti þó til að koma þessu flykki á loft. Glerumbúðirnar frá gosdrykkjaverksmiðjunni Sana niðri á Eyri höfðu venjulegað dugað fyrir þær nettari gerðir flugelda sem höfðu tíðkast í fjölskyldunni. Okkur varð ljóst að þessi risaraketta var of stór biti fyrir flöskuna sem geymt hafði ávaxtadrykkinn „hressandi blóðaukandi svalandi“ eins og á henni stóð. Hún þoldi ekki umbrot hinnar kröftugu rakettu og fór á hliðina. Á sama augnabliki geystist flugeldurinn af stað en ekki upp í loftið heldur brunaði hann með miklum þyti út götuna og hvarf sjónum okkar fyrir húshorn. Var hann þar með úr sögu okkar þetta tiltekna kvöld.

Nokkrum dögum síðar hitti móðir mín vinkonu sína sem bjó rétt hjá okkur. Þegar tal þeirra barst að hátíðahöldum í tilefni áramóta sagði nágrannakonan sínar farir allósléttar. Þau hjónin höfðu boðið aldraðri frænku hennar og enn eldri frænda hans til sín um áramótin. Eftir langdregið borðhald með þessu roskna frændfólki var sest inn í stofu og beðið eftir áramótaskaupinu. Varð partíið sífellt dauflegra. Veislugestir voru orðnir uppiskroppa með umræðuefni enda tjáskiptin ekki liðug við hálfheyrnarlaus gamalmennin. Að lokum varð ástandið í stofunni þannig að það eina sem rauf þögnina voru djúpir og silalegir geispar.

Þá var nú þögnin heldur betur rofin. Rakettan okkar, laus úr viðjum vallasflöskunnar, smaug inn um opinn eldhúsglugga og hringsólaði í borðkróknum á meðan dottandi stofugestir rönkuðu við sér með andköfum og snörli. Á þessum tíma var í tísku að hafa í húsum rimlavængjahurðir sem náðu manni niður í hné og upp í geirvörtur, líkar þeim sem prýddu knæpur í villta vestrinu. Rakettan lenti á slíkri hurð, ýtti á hana knúin eldsneyti sínu og tókst að lokum að opna hana hægt og bítandi. Þá varð þessi óboðni og háværi gestur loks sýnilegur hinum boðnu og þöglu gestum og gestgjöfum þeirra. Eftir að hafa brotist í gegnum fyrirstöðu vængjahliðsins fagnaði rakettan frelsinu með því að taka nokkra sigurhringi um stofuna uns hún hafnaði í arninum. Þar hófst dauðastríð hennar með ógurlegum sprengingum og eldglæringum uns yfir lauk.

Allt þetta gerðist á augabragði, mun styttri tíma en tók þau hraðlæsustu að lesa þessa lýsingu á atburðarásinni. Viðstöddum varð skiljanlega mjög brugðið við þessa ruddalegu og óvæntu heimsókn.

Nágrannakona móður minnar lét þess þó getið að enginn hefði meiðst og ekkert hefði skemmst og bætti því við að þessi innkoma hefði hleypt töluverðu lífi í samkvæmið sem varð hið fjörlegasta eftir húsvitjun flugeldsins.

Ég óska ykkur öllum skemmtilegra áramótapartía og blessunarríks nýs árs! Og þakka allt gamalt og gott!

Svavar Alfreð Jónsson er sóknarprestur í Akureyrarkirkju.

Garður við kirkju

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
16. ágúst 2024 | kl. 07:00

Blautir draumar

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. júlí 2024 | kl. 12:30

Sísofandi

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
02. júní 2024 | kl. 21:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Kvenfélagið Hlíf

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
19. mars 2024 | kl. 06:00

Roskin hjón á Syðri Brekkunni

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
16. febrúar 2024 | kl. 06:00