Einlæg jólagleði á Minjasafninu
Fjöldi fólks hefur lagt leið sína á Minjasafnið á Akureyri á aðventunni og ekki kom á óvart að stór barnahópur mætti þangað á laugardaginn því auglýst hafði verið von væri á góðum gestum klukkan hálf þrjú – jólasveinum úr Dimmuborgum í Mývatnssveit, „ef þeir hafa lært á klukku,“ eins og sagði í tilkynningu frá safninu.
Bræðurnir úr Dimmuborgum vita augljóslega hvað tímanum líður því þeirra mættu á hárréttu augnabliki og sungu og trölluðu með börnunum í drjúga stund við undirleik Ívars Helgasonar.
Margir hafa komið í safnið undanfarið sem fyrr segir, m.a. 889 nemendur úr leik- og grunnskólum bæjarins, og nemendur af erlendum uppruna í Menntaskólanum á Akureyri.




Ívar Helgason lék á hljómborð og þeir Aron Freyr Ívarsson sungu með börnunum og jólagestunum úr Dimmuborgum.
