Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Utanaðkomandi aðstoð og 1,4 milljarða viðbót

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, og Alma D. Möller heilbrigðisráðherra. Mynd: sak.is.

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samráði við forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri (SAk), að fá utanaðkomandi aðila til aðstoðar við forstjóra við að yfirfara rekstur SAk. Alma segir verulega hafa verið bætt í reksturinn á undanförnum árum og til standi að bæta 1,4 milljörðum króna inn í reksturinn á næsta ári. Þetta kemur fram í frétt á vef Sjúkrahússins á Akureyri í framhaldi af fundi ráðherra og fleiri með yfirstjórn og læknum á sjúkrahúsinu. 

Heilbrigðisráðherra segir löngu tímabært að bregðast við vanda Sjúkrahússins á Akureyri (SAk). Grípa þurfi til ráðstafana til skamms tíma til að tryggja læknamönnun næstu vikur og mánuði. Fara þurfi yfir nýjan kjarasamning lækna með það að markmiði að nýta hann sem best til að tryggja mönnum. 

Heilbrigðisráðherra, ásamt ráðuneytisstjóra, aðstoðarmanni og sérfræðingi ráðuneytisins á sviði mannauðsmála funduðu á Akureyri á þriðjudag með framkvæmdastjórn sjúkrahússins, fulltrúum lækna og fagráði vegna bráðavanda sem sjúkrahúsið stendur frammi fyrir við mönnun sérgreina, sér í lagi á sviði lyflækninga.

Margþættur vandi og lengri aðdragandi

Vandi sjúkrahússins er flókinn og margþættur og þó tveir lyflæknar, bæklunarlæknir og þvagfæraskurðlæknir hafi sagt upp og þær uppsagnir verið útgangspunkturinn í mörgum fréttum undanfarna daga, í bland við yfirvofandi uppsagnir ferliverkasamninga, má ráða af umræðunni að um mikla einföldun væri að ræða að afgreiða vanda sjúkrahússins eins og gert hefur verið, með uppsögnum ferliverkasamninga og að læknar hafi sagt upp vegna álags, að vandinn felist eingöngu í að finna eftirmenn þeirra. Hluti vandans er óánægja lækna með fyrirkomulag vakta og framkvæmd kjarasamninga, eftir því sem næst verður komist. 

Í umræðum um ferliverkasamningana hefur ekki aðeins verið áhersla á að málið snúist um mögulega gerviverktöku, sem er upphafspunktur fjármála- og efnahagsráðuneytisins þegar gerðar voru athugasemdir við þessa samninga, heldur einnig að gríðarlegar fjárhæðir fari í greiðslur til einstaka lækna, en aftur á móti hafa ekki komið fram upplýsingar um hve mikill hluti kemur í hlut læknanna sjálfra og hve mikið kemur í hlut sjúkrahússins þegar upp er staðið, né heldur hver áhrifin eru á almennt starfshlutfall læknanna að öðru leyti.

Til að mynda bentu tveir læknar á sjúkrahúsinu, Helga Björk Heiðarsdóttir og Guðjón Kristjánsson, á í aðsendri grein sem birtist á akureyri.net föstudaginn 21. nóvember, að alvarleg staða á sjúkrahúsinu væri margþætt og ætti sér lengri aðdraganda en uppsagnir ferliverkasamninga, eins og hafi verið til umræðu í fjölmiðlum. 

„Klukkan tifar, andrúmsloftið þyngist og starfsfólkið finnur sig þurfa komast úr óvissunni. Án samvinnu við heilbrigðisráðuneytið er kerfislegur vandi vanleystur og erfitt verður að tryggja mikilvæga læknisþjónustu hér á svæðinu - eins og okkur ber að gera,“ skrifuðu þau Helga Björk og Guðjón meðal annars.

Mikil vinna fram undan

Aftur að fundi ráðherra og fylgdarliðs með fulltrúum sjúkrahússins. Í fréttinni á vef SAk segir Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri fundinn á þriðjudag hafa verið kærkomið tækifæri.

„Það var ákaflega mikilvægt að fá heilbrigðisráðherra og hennar samstarfsfólk norður í gær til að ræða stöðu sjúkrahússins og mögulegar lausnir, bæði til lengri og skemmri tíma. Þetta var kærkomið tækifæri fyrir stjórnendur SAk að fara yfir stöðuna og mögulegar leiðir til úrbóta. Það var gott að heyra hversu mikla áherslu heilbrigðisráðherra leggur á að efla Sjúkrahúsið á Akureyri, þannig að það sé í stakk búið að veita þá þjónustu sem íbúar þurfa,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk.

„Það er hins vegar mjög mikil vinna fram undan, bæði vegna þess aðkallandi vanda sem við okkur blasir, sem og uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á okkar starfssvæði til lengri tíma. Ég er sannfærð um að við munum öll; framkvæmdastjórn, heilbrigðisráðherra, heilbrigðisráðuneytið, þingmenn, sveitarstjórnarfólk, sem og okkar góða heilbrigðisstarfsfólk, taka höndum saman og vinna samhent að lausnum, til hagsbóta fyrir íbúa.“

Margir vita, en færri segja upphátt

Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi, vekur athygli á því í aðsendri grein á akureyri.net í gær að Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, hafi „bent á það sem margir vita en færri segja uppháatt: að það er erfiðara og dýrara að manna heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.“

Ingvar ritar einnig:

„Á landsbyggðinni bera læknar gjarnan þyngri vaktabyrði, sinna fjölbreyttari verkefnum og hafa minna bakland en kollegar á stærri sjúkrahúsum. Það er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við. Þegar bráðaþjónusta, geðheilbrigðisþjónusta, fæðingarþjónusta og dagleg sjúklingaþjónusta byggja á litlum en samhentum hópi, þá verður rekstrarumhverfið brothættara. Álagið verður meira, og sveigjanleiki minni.“

„Það er kominn tími til að ræða opinskátt um áskoranir sem heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni standa frammi fyrir. Að viðurkenna að þjónusta úti á landi þurfi aðra nálgun en þjónusta í miðju höfuðborgarinnar. Sýna með aðgerðum að við meinum það sem við segjum þegar við tölum um jafnræði og öryggi í þjónustu.“

Styrkja SAk til að sinna lögbundnu hlutverki

Heilbrigðisráðherra segir aðgerðir til skamms tíma til að tryggja læknamönnun næstu vikur og mánuði felast í yfirferð á nýjum kjarasamningi lækna með það að markmiði að nýta hann sem best til að tryggja mönnun, að því er segir á vef SAk. 

Alma segir vanda sjúkrahússins ekki nýtilkominn og löngu sé orðið tímabært að bregðast við. Grípa þurfi til ráðstafana til skamms tíma til að tryggja læknamönnun næstu vikur og mánuði. Þær aðgerðir felast í yfirferð á nýjum kjarasamningi lækna, með það að markmiði að nýta samninginn sem best til að tryggja mönnun. Þá er unnið að áætlun í samvinnu við Landspítala auk þess sem forstjóri SAk hefur þegar sett af stað vinnu við að skoða hvernig þörfum fyrir dag- og göngudeildarþjónustu verði mætt. Þessar skammtímaaðgerðir eru á forræði forstjóra og framkvæmdastjórn en ráðuneytið mun styðja við þær eftir þörfum.

Þegar kemur að framtíðarsýn og langtímaaðgerðum þá er markmiðið að byggja upp þjónustu á SAk í takti við þarfir íbúa og í samhengi við aðra þjónustu sem veitt er á svæðinu. Nauðsynlegt er að styrkja SAk og tryggja að það geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem varasjúkrahús en það er einnig liður í því að byggja upp áfallaþol íslensks samfélags. „Til þess þarf að greina verkefni sjúkrahússins og móta stefnu til framtíðar og mun ég setja þá vinnu af stað á næstu dögum. Þá hef ég tekið ákvörðun, í samráði við forstjóra, um að fá utanaðkomandi aðila til aðstoðar forstjóra við að yfirfara rekstur SAk en verulega hefur verið bætt í reksturinn á undanförnum árum og til stendur að veita 1,4 milljarða viðbót inn í reksturinn á næsta ári.“