Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Síðasta uppskeran bíður betri tíma

Í maí 2023 veltu þau Sigurgeir Haraldsson og Lára Ólafsdóttir fyrir sér hvort þau væru að setja niður útsæði í síðasta skipti í garðinn sunnan Sjúkrahússins. Gátu alveg eins átt von á að garðarnir þyrftu að víkja með nýju skipulagi vegna stækkunar Sjúkrahússins, en þau geta andað léttar og haldið kartöfluræktinni áfram eins og undanfarna áratugi. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

„Uppskeran er mjög góð,“ segir Sigurgeir Haraldsson, kartöfluræktandi með meiru, þegar tíðindamaður frá Akureyri.net lítur við hjá þeim hjónum, Sigurgeiri og Láru Ólafsdóttur, þar sem þau eru að ljúka við að taka upp úr garðinum. Þetta er þó ekki bara einhver kartöflugarður heldur garður með um 130 ára sögu.

Hluti af uppskeru dagsins, óvenju stórar rauðar íslenskar kartöflur. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Í sólríku og fallegu haustveðri fyrr í mánuðinum voru þau Lára og Sigurgeir í óða önn að ljúka við uppskeruna þetta haustið. Að jafnaði taka þau sér nokkra daga í að taka upp úr garðinum en í þetta skiptið voru þau að klára, tóku aukaskorpu þann daginn þar sem þau vildu nýta blíðviðrið og verða á undan haustrigningunum sem þau vissu að von var á daginn eftir.

Síðasta uppskeran aftur og aftur

Syðst á Eyrarlandsholti hafa bæjarbúar ræktað kartöflur í nær 130 ár. Réttara væri ef til vill að segja að kartöflugarðarnir séu norðanvert í Búðargilinu þó efstu garðarnir séu raunar uppi á brúninni. Í skjölum sem tengjast kaupum og sölum á þessu svæði er vísað í Búðargilið. Bæjarbúar sumir kannast ef til vill betur við heitið „Lækjargil“ sem hefur einhverra hluta vegna náð að troða sér fram á sjónarsviðið. En Búðargil heitir það þó gatan heitir Lækjargata. Hér er átt við gilið þar sem fyrsta byggð Akureyringa reis.

Þegar áform um nýbyggingar við Sjúkrahúsið á Akureyri, sunnan við núverandi byggingar, komust í hámæli fyrir nokkrum misserum og vinna fór af stað við breytingu á skipulagi svæðisins óttuðust garðeigendur að brátt kæmi að síðustu uppskeru. Garðarnir færu mögulega undir bílastæði, sjúkrahússálmur eða lendingarstað fyrir þyrlur.

Sigurgeir sæll og glaður með hluta af uppskerunnar á þessu ári. Síðasta uppskeran verður ekki á þessu ári. Sjúkrahúsið teygir sig ekki alla leið suður á brún Bæjargilsins að sinni. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Í nokkurn tíma höfðu þau kviðið því í hvert skipti sem þau settu niður útsæði að vori og tóku upp kartöflur að hausti að það væri þeirra síðasta skipti á þessum stað vegna áforma um stækkun Sjúkrahússins. Gat verið að nýtt skipulag, stækkun sjúkrahússins, bygging bílastæða eða jafnvel nýr lendingarstaður fyrir þyrlur myndi binda enda á þessa skemmtilegu og gagnlegu iðju sem ræktun kartaflna óneitanlega er, einmitt þarna á þessum sögulega stað?

Garðurinn sem hér um ræðir á sér langa og merka sögu og Sigurgeir hefur ekki aðeins krafsað eftir kartöflum á hverju ári í áratugi heldur einnig grúskað í sögu garðsins enda stendur sagan honum nærri því þarna hefur ætt hans ræktað kartöflur síðan 1918.

Þriðji ættliður á Eyrarlandsholtinu

Sigurgeir og Lára hafa um áraraðir ræktað kartöflur á þessu svæði. Þau hafa dregið nokkuð úr magninu með árunum eftir því sem fækkaði í heimili og hafa fleiri fengið að nýta það svæði sem tilheyrir þeim.

Lára setur niður útsæði í maí 2023. Mynd: Haraldur Ingólfsson. 

Sumarið 2024 átti tíðindamaður Akureyri.net langt viðtal við Sigurgeir um sögu svæðisins og nýtingu garðanna, en hann er þriðji ættliður sem ræktar kartöflur í sama garðinum. Afi Sigurgeirs og nafni, Sigurgeir Jónsson organisti, keypti svæðið af Páli Jónssyni Árdal barnaskólakennara 1918, en Páll hafði keypt lóðina af Akureyrarbæ 1896. 

Þó það komi kartöflurækt ekki beinlínis við má nefna að á skemmtilegri mynd sem birtist á akureyri.net í júlí, í tilefni þess að 80 ár voru frá því að myndin var tekin, má meðal annarra sjá bæði föður Sigurgeirs, Harald Sigurgeirsson, og afa, Sigurgeir Jónsson organista, ásamt börnum, tengdabörnum og barnabörnum hjónanna Sigurgeirs og Friðriku Tómasdóttur.

Garðarnir utan byggingarreita

En aftur að kartöflugörðunum og skipulagi á Eyrarlandsholtinu. Ef til vill var ekkert að óttast og samkvæmt deiliskipulagstillögu sem nú er á leið í auglýsingu eru kartöflugarðarnir utan byggingarreits fyrirhugaðra bygginga Sjúkrahússins á Akureyri. Að auki eru fornminjar á svæðinu sem þarfnast rannsóknar.

Við afgreiðslu skipulagsráðs á breyttu deiliskipulagi fyrir lóð Sjúkrahússins lá meðal annars fyrir umsögn frá Minjastofnun Íslands. Upphaflegri skipulagstillögu var breytt í samræmi við athuganir Minjastofnunar þar sem uppmældar minjar syðst á svæðinu hafa verið afmarkaðar inn á skipulagsuppdráttinn, eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Hér er um að ræða gamla garða eða girðingar utan um kartöflugarðana eins og þeir voru í áratugi.

Breytt deiliskipulag samkvæmt tillögu sem nú er unnið með fyrir lóð Sjúkrahússins á Akureyri. Minjar sem þarfnast rannsóknar má sjá innan rauða hringsins, en hér er um að ræða gamla garða (girðingar) við kartöflugarðana sem voru mun umfangsmeiri en þeir eru í dag. Skjáskot úr deiliskipulagstillögu. 

Hefur haldið ítarlegar skrár

Sigurgeir er dálítill dellukarl, auk þess að vera kartöfluræktandi, áhugaljósmyndari og pípulagningameistari á eftirlaunum, fyrrum hokkíleikmaður og krullumaður að auki.

Hann hefur meðal annars, sem mikill áhugamaður um ljósmyndun, safnað og tekið myndir sem tengjast kartöfluræktuninni og sögu garðanna. Sigurgeir á ekki langt að sækja ljósmyndaáhugann því hann er bróðursonur Vigfúsar Sigurgeirssonar, hins þekkta og afkastamikla ljósmyndara og kvikmyndagerðarmanns. Þó það komi kartöfluræktinni ekki beinlínis við er gaman að velta fyrir sér ættfræðinni í tengslum við ljósmyndaáhuga Sigurgeirs. Tveir aðrir föðurbræður hans lærðu einnig ljósmyndun, en þeir voru Eðvarð, faðir Egils kvikmyndagerðarmanns og sjónvarpsmanns, og Hörður, afi Harðar Geirssonar, ljósmyndara og umsjónarmanns ljósmynda á Minjasafninu á Akureyri. 

Stutt hvíld við niðursetningu útsæðis í maí 2023. Sigurgeir og Lára hafa ekki þurft að víkja með kartöfluræktunina þrátt fyrir áform um stækkun Sjúkrahússins. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Hvað nýtingu á görðunum varðar hefur hann bæði myndað umsvifin í gegnum tíðina og haldið nákvæmar skrár um ýmislegt sem tengist kartöfluræktuninni, svo sem um veðurfar, magn útsæðis og uppskeru og svo framvegis.

Uppskeran í ár er sérlega mikil og framtíðin björt því þau þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af því að nýbyggingar við Sjúkrahúsið fari yfir garðana, að minnsta kosti ekki samkvæmt því deiliskipulagi sem nú er í formlegu samþykktarferli.

- - -

Akureyri.net hefur nokkuð lengi verið með á dagskránni að fjalla um kartöflugarðana og þessa skemmtilegu iðju Sigurgeirs og Láru. Á næstunni mega lesendur því eiga von á ítarlegri yfirferð um sögu garðanna og ýmislegt sem leynist í fróðleiksbrunni og myndasafni Sigurgeirs Haraldssonar.