Fara í efni
Sigurður Ingólfsson

Núvitund?

Þetta orð hefur þvælst aðeins fyrir mér. Kannski og líklega vegna þess að mér finnst svo illa farið með það. Þessi hugsun sem virkar á marga eins og að fortíðinni verði ekki breytt og maður sætti sig bara si svona við hana, framtíðin sé óskrifað blað og ekkert um hana sé breytanlegt þannig að best sé að lifa bara í núinu, sem mér finnst afskaplega heimskuleg útfærsla á miklu dýpri speki og á svo margan hátt vera röng. Fortíðin er fyrir mér eitthvað sem lifir í huga manns, nauðsynlega til að í þessu svokallaða „núi“ geti maður notað mistök sín og upplifanir til að búa til framtíð. Fyrir það fyrsta er ekkert „nú.“ Það leið hjá rétt í þessu. Samhengi alls er miklu meira en „núið,“ það er partur af eilífðinni. Og hluti þeirrar tiltölulega stuttu þátttöku í lífinu. Þegar ég tek eftir fólkinu sem er svona sirka gamalt og ég vera komið að endanlegri niðurstöðu um það hvernig líf og hegðun annarra á að vera, af því að þess „nú“ er fastapunktur endanlegra lífsskoðana þá finnst mér eitthvað vera mikið að. Framtíðin er nefnilega alveg jafn fljótandi og lifandi skepna og hún hefur verið í árþúsundir. Á meðan svo ótal margir halda að „núið“ sé ekki bara það eina sem vert er að upplifa, heldur líka það sem allir eigi að upplifa. Lífið er stutt og þegar við erum ekki lengur til staðar taka aðrir við og þeim ber vissulega skylda til að breyta og bæta heimóttarskapinn í okkur sem höfum fest í kreddum og fordómum og langtíma skoðanahelsi fortíðarinnar. Og það eru ekki bara við Molbúarnir á Íslandi, sem enn kjósa yfir sig fjárglæfrafólk og pólitíska amlóða sem sitjum í súpunni. Þetta virðist vera alþjóðlegur sjúkdómur. Það standa samt alltaf einhverjir upp úr þessum svínslega raunveruleika og hegða sér á annan hátt en viðtekinn er, sumir verða listamenn, skapandi annan og betri eða jafnvel þjáningarfyllri en samt alltaf á einhvern furðulegan hátt tilfinningaríkari veruleika en þennan „eina rétta.“ Mörgum mistekst en reyndu samt, einn og einn kemst upp með það og lauma nýjum hugmyndum um ást og kærleika inn í heimsmynd þeirra sem kunna að meta hreinskilni og er illa við pólitíska rétthugsun með því einu að standa keikir við hlaðborð lífsins og velja sér það sem er réttast og best. Og svona aukreitis þá er mér slétt sama um það hvernig fólk skilgreinir sig, hvort einhver vill vera hán eða það, eða eitthvað slíkt, ég nefnilega skilgreini ekki manneskjur út frá neinu nema hvort hún er ill eða góð. Mín vegna má fólk skilgreina sig eins og það vill. Ég skilgreini ekki fólk. Nema bara hvort hver og einn er skítseyði eða ekki. En ég er líka svolítið mikið háður því að vera á móti skilgreiningum, sem er mjög líklega heimskulegt. Og ég viðurkenni furðulegt líf mitt í því samhengi. En svona í lokin, þá er ég þeim vankosti haldinn að elska fólk, stundum of mikið og kann bara ekki að hata. Sem er vísast einhver fötlun. Og mitt „nú“ er allt þetta flæði sem lifir í mistökum mínum, ástum og allskonar vitleysu og von um að í framtíðinni geri ég betur. Það er minn hugsunarháttur og mér myndi aldrei detta það í hug að sá hugsunarháttur sé nauðsynlega réttur. Ég kann alveg að hafa rangt fyrir mér en ég reyni að læra eitthvað af því. Vonandi.

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Enn einn heimsendir

Sigurður Ingólfsson skrifar
15. janúar 2024 | kl. 11:00

Orð

Sigurður Ingólfsson skrifar
06. janúar 2024 | kl. 10:00

Requiem

Sigurður Ingólfsson skrifar
06. desember 2023 | kl. 10:30

Í Davíðshúsi

Sigurður Ingólfsson skrifar
28. september 2023 | kl. 09:00

Litla gula hænan

Sigurður Ingólfsson skrifar
17. september 2023 | kl. 12:30