Jafnt í Silkeborg og KA í góðri stöðu

KA-menn standa vel að vígi eftir 1:1 jafntefli við Silkeborg í Danmörku í dag, í fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu. Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði glæsilegt mark undir lok leiksins og tryggði KA jafntefli.
Silkeborg kemur í heimsókn á Greifavöllinn á fimmtudagskvöld í næstu viku og KA-strákarnir eiga að bera höfuðið hátt og koma fullir sjálfstrausts til þeirrar rimmu; varkárir, en fullir sjálfstrausts því nái þeir sér á strik, leggi menn sig eins vel fram og í dag, geta þeir haft betur og komist í 3. umferðina.
Rodri í Silkeborg í dag; hann var einn þriggja miðvarða KA og brá sér svo í sóknina undir lokin og skallaði boltann niður í teiginn þegar Hallgrímur Mar jafnaði metin. Mynd: Silkeborg IF
Skynsemin ræður
KA-menn stóðu sig feykivel gegn danska liðinu. Léku mjög skynsamlega, Danirnir voru meira með boltann eins og reiknað var með en KA-strákarnir þorðu að halda boltanum þegar þeir náðu honum, eins og Hallgrímur þjálfari Jónasson talaði um fyrir leik að væri nauðsynlegt. Miklu skiptir að halda ró sinni þegar við á og engan æsing var að sjá á nokkrum manni.
Leikmenn Silkeborgar áttu nokkur skot framan af leik en Steinþór Már markvörður lenti ekki í neinum vandræðum. Callum McCowatt náði hins vegar að brjóta ísinn á 38. mínútu; hann fékk boltann rétt utan vítateigs og sendi hann efst í markhornið fjær. Gott og hnitmiðað skot sem Steinþór átti ekki möguleika á að verja.
Litlu munaði að KA næði að jafna skömmu fyrir miðjan seinni hálfleik þegar Steinþór markvörður, sem lék mjög vel í dag, var fljótur að átta sig þegar hann handsamaði boltann og sendi hann langt fram völlinn þar sem hann sá Ásgeir Sigurgeirsson og einungis einn varnarmann; Ásgeir hafði betur þótt hart væri sótt að honum, komst inn í vítateig en skot hans fór hárfínt framhjá fjærstönginni.
McCowatt, sem gerði mark danska liðsins, fékk kjörið tækifæri til að gera út um leikinn þegar þrjár mínútur voru eftir skv. leikklukkunni en Steinþór Már sá við honum; gerði frábærlega að verja skot McCowatts af stuttu færi.
Þegar hefðbundnum leiktíma var að ljúka, og þriggja mínútna uppbótartími að hefjast – sem urðu reyndar að fimm mínútum vegna fagnaðarláta – jafnaði svo Hallgrímur með frábæru skoti; Birgir Baldvinsson, sem kom inn á nokkrum mínútu áður, átti góða sendingu inn á vítateig utan af vinstri kanti, Rodri skallaði boltann sem barst til Hallgríms og þrumufleygur hans með vinstra fæti hægra megin úr teignum var meira en markvörður heimaliðsins réð við. Boltinn söng efst í horninu fjær. Frábærlega gert!
- Leikskýrslan á vef UEFA
- Akureyri.net fyrr í kvöld: Glæsimark Hallgríms og KA í góðum málum
Hans Viktor Guðmundsson með boltann á Jysk-leikvanginum í Silkeborg í dag. Rami Al Hajj til vinstri. Mynd: Silkeborg IF.