Jólahefðirnar mínar – Kári Fannar
JÓLAHEFÐIRNAR MÍNARKári Fannar Brynjarsson,9. bekk Lundarskóla skrifar
Við í fjölskyldunni erum með nokkrar alveg geggjaðar jólahefðir sem mig langar að segja ykkur frá. Við systkinin eigum til dæmis öll okkar eigin heimasaumuðu pakkadagatöl sem amma gerði og er sett á þau fyrir hver jól, í ár fæ ég t.d. hluta og hluta úr tæknilegói til að byggja á hverjum degi fram að jólum.

Á Þorláksmessu höfum við alltaf pakkaleik sem er eiginlega orðinn uppáhaldið mitt um jólin. Þá setjum við öll nöfnin okkar í skál og drögum hvert okkar einn miða með nafni – og þetta er svaka leyndarmál, enginn má vita hvern maður dró. Svo förum við öll saman í Glerártorg. Þar fáum við risastóran jólapoka og pening til að kaupa einhverja fyndna „gríngjöf“ fyrir manneskjuna sem við drógum. Maður þarf að passa sig svo fjölskyldan sjái ekki hvað maður er að kaupa, og maður er basically að fela sig á bak við hillur til að enginn sjái mann. Þegar maður er búinn að finna eitthvað þá fer það beint í pokann, hann er límdur aftur og miði með nafninu á þeim sem maður dró er límdur undir. Pokarnir eru allir alveg eins, þannig enginn getur séð hver hefur gefið hverjum. Pokarnir fara svo bak við jólatréð heima og bíða þar fram á jóladagsmorgun.
Á aðfangadagsmorgun setur Stúfur ný nærföt í skóinn svo við lendum ekki í jólakettinum. Í hádeginu förum við svo til ömmu og afa í Hamragerðina í möndlugraut. Amma er búin að safna hringlaga karamellum úr öllum mögulegum Mackintosh dósum í mörg ár til að sósan verði „eins og hún á að vera“. Þegar mandlan finnst og einhver vinnur möndlugjöfina förum við alltaf öll saman í kirkjugarðinn og kveikjum á kerti hjá ættingjum okkar.

Jóladagsmorgun er eiginlega eitt það skemmtilegasta við jólin. Þá eigum við eftir eina gjöf – pakkaleiksgjöfina. Við gerum okkur heitt súkkulaði í morgunmat á náttfötunum og borðum heimabökuð skinkuhorn, snúða og smákökur. Svo byrjar pakkaleikurinn - við fáum hver sinn pokann, opnum einn í einu og reynum að giska á hver gaf hverjum. Þetta endar alltaf með miklum hlátri. Okkur krökkunum finnst skemmtilegast að mega bara kaupa það sem okkur langar til engin að skipta sér af því, enda eigum við yfirleitt bestu hugmyndirnar.
Í kringum jólin förum við líka í ýmis jólaboð eins og flestir, en við höldum eitt sjálf sem er sushi veisla! Gestir koma til okkar um hádegi og við gerum saman sushi og borðum það svo í kvöldmat, ásamt því að spila og hafa gaman.
Áramótin höldum við svo alltaf fyrir austan hjá ömmu og afa, sem er líka orðin ómissandi hefð.
Jólin í eldgamla daga – Anna Lilja