Fara í efni
KA/Þór

Stórt tap á Selfossi og KA/Þór úr leik

Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson

KA/Þór steinlá fyrir liði Selfoss í kvöld í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í handbolta, Powerade bikarnum. Liðin mættust á Selfossi og heimamenn gjörsigruðu gesti sína, 34:15. Staðan í hálfleik var 19:6.

Eftir naumt tap fyrir toppliði Vals í efstu deild Íslandsmótsins um helgina var stelpunum í KA/Þór kippt harkalega niður á jörðina í kvöld. Selfyssingar, sem eru með fullt hús stiga í næst efstu deild Íslandsmótsins, settu í fluggír strax í byrjun leiks og stungu hreinlega af. Ekki stóð steinn yfir steini hjá KA/Þór, sóknarleikurinn var afar slakur, Selfyssingar gerðu hvert markið af öðru eftir hraðaupphlaup, og þegar gestirnir stilltu upp í vörn gekk það illa eins og annað.

Mörk KA/Þórs: Nathalia Soares Baliana 3, Lydía Gunnþórsdóttir 2, Isabella Fraga 2, Thelma Lísa Elmarsdóttir 2, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 2, Hildur Magnea Valgeirsdóttir 2, Aþena Einvarðsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 10, Sif Hallgrímsdóttir 4 (29,2%).

Smellið hér til að sjá all tölfræðina.