Fara í efni
KA/Þór

Slæm byrjun Þórs/KA og sögulegt tap

Þór/KA sækir að marki Tindastóls í fyrri leik liðanna í sumar. Genevieve Jae Crenshaw markvörður Sauðkrækinga þurfti að sækja boltann tvisvar í netið í leiknum en slapp við það í gær. Margrét Árnadóttir, önnur frá vinstri, sem hefur leikið vel á miðjunni í sumar var í leikbanni í gær og sárt saknað. Mynd: Ármann Hinrik

Þór/KA byrjaði afleitlega í gær eftir EM-fríið langa, þegar liðið sótti Tindastól heim á Sauðarkrók í Bestu deild kvenna, efstu deild Íslandsmótsins. í knattspyrnu. Tindastóll skoraði strax á sjöttu mínútu eftir slæm varnarmistök og aftur áður en stundarfórðungur var liðinn og þar við sat; úrslitin urðu 2:0. Þetta er í fyrsta skipti sem Þór/KA tapar fyrir Tindastóli á Íslandsmótinu.

Breiðablik vann Þrótt 3:2 í toppslagnum og er með 28 stig, Þróttur 25, FH 22 og á leik til góða, Þór/KA með 18, Valur, sem marði stigalaust lið FHL 2:1 á heimavelli, er með 15 stig, eins og Fram sem á leik til góða.

Það var Birgitta Rún Finnbogadóttir sem gerði fyrr mark Tindastóls; komst inn í lausa sendingu, lék framhjá aftasta varnarmanni og inn í vítateig og skoraði af öryggi framhjá fram Jessicu Berlin markverði.

Makala Woods gerði seinna markið; fékk boltann framarlega á vellinum eftir langa sendingu Birgittu Rúnar, varnarmenn gerðu ekki almennilega atlögu að henni og Berlin réð ekki við skot framherjans.

Þór/KA ógnaði marki Tindastóls í tvígang undir lok fyrri hálfleiks og gestirnir stjórnuðu svo ferðinni meira og minna í seinni hálfleik en ógnuðu ekki að ráði nema í blábyrjun hálfleiksins.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni