Handboltastemning í Bakaríinu við brúna
Kristján Gylfason eigandi Bakarísins við brúna er fyrrverandi handboltakappi og mikill áhugamaður um íþróttina. Vilji svo ólíklega til að það hafi farið framhjá einhverjum skal það upplýst að Evrópumót landsliða stendur yfir þessa dagana í Svíþjóð, Danmörk og Noregi, og þess sjást merki í bakaríi Kristjáns.
Nokkrar íslenskar landsliðstreyjur hanga uppi í bakaríinu, flestar merktar akureyrskum landsliðskempum, en einnig gamlar landsliðstreyjur Noregs og Svíþjóðar. „Mig langaði bara að vekja smá athygli á þessu, að lífga aðeins upp á tilveruna,“ sagði Kristján þegar akureyri.net greip hann glóðvogan í morgun og spurði út í þessa viðeigandi janúar-skreytingu.
Á myndinni að ofan er rauð landsliðstreyja Sverre Andreas Jakobssonar, þá blá treyja Odds Gretarssonar og síðan ein glæný, eins og liðið leikur í núna. Næst er treyja Arnórs Þórs Gunnarssonar og síðan treyja merkt Róberti Gunnarssyni. Hann hefur aldrei leikið með Akureyrarliði en sannarlega komið til bæjarins!
Alltaf best í Þýskalandi
Kristján hefur sótt fjölmörg stórmót í handbolta og segir það alltaf jafn gaman. „Ég fór fyrst 2007, á heimsmeistaramótið í Þýskalandi og fór á nánast öll mótin þangað til 2020!“ segir hann. Þegar spurt er hvort eitthvað standi upp úr er Kristján fljótur til svars: „Fyrsta mótið. Og staðreyndin er sú að það er alltaf skemmtilegast þegar spilað er í Þýskalandi. Það er himinn og haf á milli mótanna þar og annar staðar, Þjóðverjar kunna best allra að halda svona mót.“
Kristján komst ekki utan að þessu sinni en þar sem heimsmeistaramótið fer fram í Þýskalandi að ári kemur ekki á óvart að hann er þegar farinn að undirbúa ævintýraferð þangað!
Bjartsýnn fyrir kvöldið
„Strákarnir okkar“ – eins og karlalandsliðið er gjarnan nefnt, að minnsta kosti þegar vel gengur! – hafa staðið sig með prýði til þessa, unnið Ítalíu og Pólland og mæta Ungverjalandi í kvöld. Mótherjar kvöldsins eru margir stórir, sterkir og þungir og Ungverjar hafa oft reynst Íslendingum óþægur ljár í þúfu. En Kristján er bjartsýnn og viss í sinni sök: „Við vinnum í kvöld, ég er alveg klár á því. Það væri örugglega erfiðara að mæta liði eins og Ungverjum seinna í mótinu en strákarnir í liðinu eru allir heilir svo við vinnum.“
Hann er ánægður með liðið hingað til. „Íslenska liðið er mjög gott, við erum með leikmenn sem spila í bestu liðum í heimi þannig að ef þeir eru góðir í leikjunum ná þeir langt. En á móti má segja að ef þeir eru ekki góðir þá ná þeir ekki langt!“ Það er nefnilega svo í handbolta eins og fleiri íþróttagreinum að alls kyns smáatriði geta skipt sköpum; oft er stutt á milli hláturs og gráts.
Viðureign Íslands og Ungverjalands í kvöld er síðasti leikur liðanna í F-riðli, bæði komast áfram í milliriðil sem leikinn verður í Malmö og sigurliðið í kvöld mætir þar til leiks með tvö stig í pokahorninu. Verði jafntefli í kvöld verður hvort lið með eitt stig þegar baráttan hefst á ný, í Malmö á föstudaginn.
Ljóst er að mótherjar í Malmö verða Króatar, Svíar og Slóvenar, og í kvöld fæst úr því skorið hvort Færeyingar eða Svisslendingar verði í þeim milliriðli.
- Leikur Íslands og Ungverjaland hefst kl. 19.30 og verður sýndur á RÚV eins og aðrir leikir.