Fara í efni
KA

Mikið undir bæði hjá KA-mönnum og Þórsurum

Tveir mjög mikilvægir íþróttaleikir eru á dagskrá á Akureyri í kvöld og sá þriðji, þar sem Akureyrarlið verður í eldlínunni og einnig er mikið í húfi, fer fram í Grafarvogi í Reykjavík.

  • 18.30 KA - Grótta, Olís deild karla í handbolta
KA er í níunda sæti efstu deildar Íslandsmóts karla í handbolta fyrir leikinn en Grótta í áttunda sæti, því síðasta sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn. Með sigri færu KA-strákarnir því upp fyrir Gróttu og í vænlega stöðu fyrir baráttuna framundan.
 
KA-menn eiga fjóra leiki eftir í deilarkeppninni.
 
  • KA - Grótta
  • KA - Víkingur
  • Afturelding - KA
  • KA - Valur
Öll liðin í neðri hlutanum hafa lokið 17 leikjum. Stjarnan og Grótta eru bæði með 13 stig, KA hefur 12, HK 9, Víkingur 8 og Selfoss er neðst með 6 stig.
 
  • 19.15 Þór - Þróttur úr Vogum, 1. deild karla í körfubolta

Lokasprettur deildarkeppninnar er einnig framundan í 1. deildinni í körfubolta. Efsta liðið fer beint upp í Subway deildin en liðin í 2. - 9. sæti fara í úrslitakeppni um annað laust sæti í efstu deild. Þórsarar eru ekki öruggir um sæti í úrslitakeppninni en eiga góða möguleika á að komast þangað.

Þór á fjóra leiki eftir í deildinni:

  • Þór - Þróttur V
  • Þór - Ármann
  • Sindri - Þór
  • Þór - Skallagrímur

Þórsarar eru í áttunda sæti, hafa unnið sjö leiki af 18, Selfoss er næst fyrir neðan með 12 stig eftir 19 leiki og þar fyrir neðan er Ármann með 10 stig eftir 17 leiki. Akurnesingar eru í næsta sæti fyrir ofan Þór með tveimur stigum meira, einnig eftir 18 leiki.

  • 19.30 Fjölnir - Þór, Grill 66 deildin í handbolta

Þórsarar eru í baráttu fjögurra liða um eitt laust sæti í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta næsta vetur.  ÍR er efst liðanna fjögurra með 20 stig, Fjölnir  hefur 19, Þór 18 og Hörður 16. ÍR og Hörður eiga fjóra leiki eftir, en Þór og Fjölnir þrjá. 

Þórsarar eiga þrjá leiki eftir í deildinni:

  • Fjölnir - Þór
  • Þór - Fram U
  • Þór - Víkingur U

Efsta liðið af þessum fjórum fer beint upp í Olísdeildina. Það næst efsta fer í úrslitaviðureign um hitt lausa sætið í efstu deild; mætir annað hvort liðinu í þriðja eða fjórða sæti. Þau tvö spila um réttinn til að keppa við liðið sem endar í öðru sæti.