Fara í efni
KA

KA í undanúrslit bikarkeppninnar

KA-menn fagna innilega nokkrum augnablikum eftir að lokaflautið gall í KA-heimilinu í kvöld. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA sló Íslands- og bikarmeistara Framara úr leik í KA-heimilinu í kvöld í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik, Powerade-bikarnum. Eftir jafnan fyrri hálfleik náði KA undirtökunum eftir hlé og vann öruggan sigur, 30:25. KA-liðið er því komið í undanúrslit bikarsins en ríkjandi bikarmeistarar Framara eru úr leik.

Fyrri hálfleikur var býsna jafn og fjörugur en KA þó yfirleitt skrefi á undan, oft með 2-3 marka forskot. Framarar voru þó aldrei langt undan og í leikhléi munaði einu marki, 14:13 KA í vil. Morten Linder hjá KA og Dánjal Ragnarsson Framari voru í miklu stuði og skoruðu 6 mörk hvor í hálfleiknum, auk þess sem Breki í marki Fram varði bæði vítin sem KA fékk í hálfleiknum.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson, sem hér er í kröppum dansi í baráttu kvöldsins, gerði 6 mörk en Morten Linder – sem er þarna milli fóta markvarðarins – var markahæstur KA-manna með 7 mörk. 

Góður kafli í seinni hálfleik tryggði sigurinn

Enn var jafnræði með liðunum framan af seinni hálfleik en með góðum kafla náðu Framarar yfirhöndinni og komust tveimur mörkum yfir. KA-menn voru ekki á þeim buxunum að leggja árar í bát, stoppuðu í götin, og á tólf mínútna kafla skoraði KA 7 mörk gegn einu frá Fram og staðan skyndilega orðin 25:21 fyrir KA. Þá voru sex mínútur til leiksloka og KA spilaði mjög skynsamlega það sem eftir var, sóknirnar langar og færin nýtt vel. Framarar voru aldrei líklegir til að rétta úr kútnum og leiknum lyktaði með öruggum KA-sigri, 30:25. Liðsheildin var sterk hjá KA, Giorgi Dikhaminjia skoraði öll sín 5 mörk síðasta korter leiksins, þegar KA var að hrista Framara af sér, og Bruno varði mikilvæg skot.

Undanúrslitin í bikarkeppninni fara fram fimmtudaginn 26. febrúar og sigurliðin mætast síðan í úrslitaleiknum laugardaginn 28. febrúar.

Haraldur Bolli Heimisson, liðs- og söngstjóri KA-manna, fór fyrir handboltakór félagsins á mikilli gleðistund eftir sigurinn í kvöld.

Mörk KA: Morten Linder 7, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 6, Giorgi Dikhaminjia 5, Jens Bragi Bergþórsson 4, Logi Gautason 3, Einar Rafn Eiðsson 2 (2 víti), Magnús Dagur Jónatansson 2, Einar Birgir Stefánsson 1.

Varin skot: Bruno Bernat 12.

Mörk Fram: Dánjal Ragnarsson 10, Ívar Logi Styrmisson 5 (2 víti), Kjartan Þór Júlíusson 4, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 3, Rúnar Kárason 2, Erlendur Guðmundsson 1.

Varin skot: Breki Hrafn Árnason 10 (2 víti), Arnór Máni Daðason 1.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz