Fara í efni
KA

KA og KA/Þór í 5. flokki unnu Norden Cup

Stelpurnar í 5. flokki KA/Þórs, ásamt Heimi Erni Árnasyni þjálfara, eftir sigurinn í úrslitaleiknum. Mynd: norden-cup.se.

Lið KA/Þórs í 5. flokki stúlkna og lið KA í 5. flokki drengja í handknattleik gerðu sér lítið fyrir í morgun og unnu gullverðlaun á Norden Cup í Svíþjóð. Bæði lið tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum eftir mikla baráttu og báru síðan sigur úr býtum í úrslitum gegn sænskum andstæðingum.

Stelpurnar í KA/Þór unnu norskt lið í 8-liða úrslitunum og svo danskt lið í undanúrslitunum. Úrslitaleikurinn var gegn sænska liðinu Önnereds HK og þar tókst þeim akureyrsku að tryggja sér sigur eftir framlengdan leik og þar með Norden Cup meistaratitilinn í 5. flokki. Staðan var jöfn 17:17 eftir venjulegan leiktíma en í KA/Þór réði ferðinni í framlengingunni og lokatölur urðu 21:17.  Mörk KA/Þórs: Steinunn Heimisdóttir 7, Maríanna Gunnþórsdóttir 3, Elsa Egilsdóttir 3, Hilda Stefánsdóttir 3, Sunna Kristinsdóttir 2, Arney Steinþórsdóttir 1, Lydia Ragnarsdóttir 1, Julia Heinesen 1. 

KA-strákarnir unnu auðveldan sigur á norsku liði í undanúrslitum en leikurinn í 8-liða úrslitunum var mun erfiðari og þar vannst naumur sigur, 20:19, gegn dönskum andstæðingum. Sænska liðið Kärra HF var síðan andstæðingurinn í úrslitaleiknum. Eftir jafnan og spennandi leik voru það KA-drengirnir sem lönduðu 18:16 sigri og unnu þar með Norden Cup meistaratitilinn í 5. flokki. Markahæstur hjá KA í úrslitaleiknum var Andri Haddsson með 9 mörk, Hermann Guðlaugsson skoraði 5, Fannar Kristinsson 3 og Jaki Ragnarsson 1. 

KA-strákarnir, ásamt þjálfaranum Andra Snæ Stefánssyni, kampakátir eftir sigurinn í úrslitaleiknum. Mynd: norden-cup.se.