Fara í efni
KA

KA tekur á móti Túfa og Valsdrengjum hans

Srdjan Tufegdzic stjórnar KA-mönnum á Akureyrarvelli fyrir nokkrum árum. Þessi gamli KA-maður stýrir Valsmönnum í fyrsta skipti í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA var Val í heimsókn í kvöld í Bestu deildinni í knattspyrnu. Leikurinn hefst kl. 19.15 á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið og gamalkunnugt andlit verður á hliðarlínunni; Srdjan Tufegdzic, Túfa, fyrrverandi leikmaður og þjálfari KA stýrir Val í fyrsta sinn. Hann tók við á dögunum þegar Arnar Grétarsson, annar fyrrverandi þjálfari KA, var látinn fara frá Hlíðarendafélaginu.

Valur er í þriðja sæti deildarinnar með 28 stig að 15 leikjum loknum en KA er í áttunda sæti með 19 stig úr 16 leikjum. Sex efstu liðin halda áfram baráttu um Íslandsmeistaratitilinn að 22 leikjum loknum, Framarar skipa nú það sæti með 23 stig.

KA á sex leiki eftir áður en deildinni verður skipt í tvennt og því eru 18 stig í pottinum.

  • KA - Valur
  • Fylkir - KA
  • KA - Stjarnan
  • Fram - KA
  • KA - Breiðablik
  • ÍA - KA

Valur vann fyrri deildarleikinn við KA í sumar 3:1 á heimavelli snemma í maí. Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði mark KA úr vítaspyrnu og það var hann sem braut ísinn þegar KA-strákarnir snéru blaðinu eftirminnilega við og sigruðu Valsmenn 3:2 á heimavelli í undanúrslitum bikarkeppninnar 2. júlí og tryggðu sér þar með sæti í úrslitaleiknum annað árið í röð.

Hallgrímur Mar skoraði eftir aðeins fimm mínútur í bikarleiknum, Patrick Pedersen jafnaði fyrir Val seint í fyrri hálfleik og Jakob Snær Árnason kom KA yfir á ný áður en hálfleiknum lauk.

Daníel Hafsteinsson gerði þriðja mark KA á 62. mín. við mikinn fögnuð en ekki voru liðnar nema þrjár mínútur þar til Birkir Már Sævarsson hafði minnkað muninn fyrir gestina. Staðan þá 3:2 og þann rúma hálftíma sem liðin héldu áfram leik var spennan mikil. Valsmenn voru mun meira með boltann en KA-liðið varðist mjög vel og átti stórhættulegar sóknir. Hefði sannarlega getað skorað meira.

Fróðlegt verður að sjá viðureign liðanna í kvöld. Dugnaður og samheldni KA-manna var aðdáundarverð í bikarleiknum, þeir börðust eins og ljón, gáfu aldrei þumlung eftir og uppskáru eftir því en gestirnir voru ekki tilbúnir í slaginn. Stóra spurningin hvort KA heldur sínu striki og nælir í þrjú afar dýrmæt stig í kvöld eða hvort Túfa hefur náð að blása Valsmönnum baráttuanda í brjóst.