Þór úr leik í bikarnum eftir tap á Króknum
Kvennalið Þórs í körfuknattleik er úr leik í bikarkeppninni, VÍS-bikarnum, eftir tíu stiga tap fyrir Tindastóli á Sauðárkróki í 16 liða úrslitum í dag.
Tindastólsliðið hafði undirtökin lengst af, en Þórsliðið náði að minnka muninn í fjögur stig þegar langt var liðið á fyrri hálfleikinn. Þá kom áhlaup frá heimakonum sem skoruðu 11 stig í röð og enduðu fyrri hálfleikinn með 15 stiga forskot. Þórsliðið hélt þó áfram að berjast og saxaði á forskotið, en komst þó ekki nær þeim en fimm stigum. Tindastóll vann á endanum með tíu stiga mun, 102-92, í leik sem Þórsliðið getur verið stolt af þegar á allt er litið.

Hjörtfríður Óðinsdóttir, sú eina af varamönnum Þórs í dag sem kom við sögu í leiknum, fer hér framhjá Maddie Sutton. Maddie hefur oft skorað meira og tekið fleiri fráköst en í dag enda má sjá að hún virðist ekki alveg meiðslafrí þó hún hafi spilað tæpar 30 mínútur. Eins og sjá má voru þær Hrefna Ottósdóttir og Kristín María Snorradóttir mættar á bekkinn í dag vegna meiðslavandræða í Þórsliðinu. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.
Chloe Wilson var stigahæst í Þórsliðinu eins og jafnan áður, skoraði 28 stig. Emma Karólína Snæbjarnardóttir skoraði 20 stig. Chloe tók 11 fráköst og Emilie Ravn átti tíu stoðsendingar. Tindastóll skartar tveimur af bestu leikmönnum Bónusdeildarinnar. Önnur þeirra er Maddie Sutton, sem er Akureyringum að góðu kunn, en auk hennar var Marta Hermida Þórsliðinu erfið, skoraði 38 stig og átti tíu stoðsendingar. Maddie hefur þó líklega alltaf tekið fleiri fráköst en í leiknum í dag, en hún náði sjö fráköstum.
- Tindastóll - Þór (28-25) (27-15) 55-40 (21-30) (26-22) 102-92
Helstu tölur Þórsliðsins, stig/fráköst/stoðsendingar:
- Chloe Wilson 28/11/1 - 33 framlagsstig
- Emma Karólína Snæbjarnardóttir 20/5/3
- Yvette Adriaans 15/5/7
- Emilie Ravn 13/3/10
- Iho Lopez 8/9/3
- Hjörtfríður Óðinsdóttir 8/0/1
Þórsliðið hefur verið fámennt það sem af er tímabili. Átta hafa verið á leikskýrslum hjá liðinu í haust og nú ber svo við að tvær þeirra eru frá vegna meiðsla. Sigurlaug Eva Jónasdóttir hefur misst af nokkrum leikjum og María Sól Helgadóttir var ekki með í dag. Inn í hópinn komu tvær sem hafa ekki verið að spila með liðinu í vetur, þær Hrefna Ottósdóttir og Kristín María Snorradóttir, en þær komu þó ekki við sögu í leiknum sjálfum. Leikmínútur Þórsliðsins skiptust því á sex leikmenn, sem er kunnugleg staða frá því í fyrravetur þegar meiðsli lykilleikmanna settu strik í reikninginn á lokakafla tímabilsins.
Ásamt Tindastóli eru KR, Aþena, Haukar, Grindavík, Ármann, Keflavík og Hamar/þór komin áfram í átta liða úrslitin. Þórsarar verða því að bíða áfram eftir nýju bikarævintýri, en lið félagsins fór í úrslitaleikinn 2024 og í undanúrslit í mars á þessu ári.