Fara í efni
Hjólreiðar

Mögnuð frammistaða en grátlegt tap Þórs

Hákon Ingi Halldórsson var ekki með Þór í síðasta leik en lék á ný í kvöld og gerði sex mörk. Myndir: Ármann Hinrik

Þór tapaði með eins marks mun, 31:30, fyrir toppliði Vals í Reykjavík í kvöld í Olísdeildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Frammistaða Þórs var mögnuð; liðið var afleitt í síðasta leik og steinlá fyrir Fram á heimavelli, en allt annað var upp á teningnum nú og í raun grátlegt fyrir Þórsara að ná ekki í annað stigið eða jafnvel bæði gegn liðinu sem margir telja það besta hérlendis um þessar mundir.

Þórsarar byrjuðu mjög vel og voru betri í fyrri hálfleik. Vörnin var góð og einnig Nikola Radivanovic markvörður. Skynsemin réð ríkjum í sóknarleiknum; Þórsarar náðu að stjórna hraðanum meira og minna allan hálfleikinn og voru fjórum mörkum yfir, 16:12, þegar fimm og hálf mínúta var eftir. Valsmenn gerðu hins vegar fjögur síðustu mörkin og staðan var jöfn þegar fyrri hálfleik lauk.

Hafþór Már Vignisson var öflugur í sókninni í Þór í kvöld, einkum í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur var jafn og spennandi. Valsmenn allan tímann skrefi á undan, munurinn þó sjaldnast nema eitt eða tvö mörk en fór reyndar í þrjú mörk í skamma stund. Þórsarar fengu nokkrum sinnum möguleika á að jafna en tókst ekki og kenna má um bæði óheppni og klaufaskap. Miðað við frammistöðuna hefði Þórsliðið átt skilið að minnsta kosti annað stigið og strákarnir sýndu í kvöld það sem áður hefur verið haldið fram á þessum vettvangi; þegar þeir mæta vel stemmdir til leiks og sýna hvað í þeim býr eiga Þórsarar möguleika gegn öllum liðum deildarinnar.

Þegar fjórar mínútur voru eftir skoraði hornamaðurinn Þormar Sigurðsson fyrir Þór og minnkaði muninn í eitt mark, 31:30. Ekki var meira skorað þrátt fyrir að bæði lið fengju góð færi til þess, bæði vegna klaufaskapar og þess að markverðirnir skelltu í lás. Um tvær mínútur voru eftir þegar Þór fékk vítakast en Björgvin Páll Gústavsson markvörður Vals sá við Oddi Gretarssyni sem skaut, áfram var haldið en hvorugt lið náði að bæta við marki og því fór sem fór.

Þórsarar geta borið höfuðið hátt þrátt fyrir tapið og frammistaðan hlýtur að gefa þeim byr undir báða vængi. Liðið er áfram í 11. og næst neðsta sæti deildarinnar með sjö stig, en ÍR er neðst með fimm. Stjarnan og HK eru með 10 stig í áttunda og níunda sæti og Selfoss er í sætinu fyrir Þór með níu stig. Mikið er eftir af mótinu, stefna nýliða Þórs vitaskuld áfram sú að komast í átta liða úrslitakeppni og ef skynsemin ræður áfram för á að vera raunhæfur möguleiki á því. 

Þórður Tandri Ágústsson og Brynjar Hólm Grétarsson eru lykilmenn í Þórsliðinu og Halldór Kristinn Harðarson, lengst til hægri, hefur komið sterkur inn í síðustu leikjum.

Flestir Þórsarar léku vel í kvöld margir komu við sögu. Arnór Hólm Kristjánsson sem lengi hefur glímt við meiðsli var með á ný en virtist meiðast í lok fyrri hálfleiks og kom ekki meira við sögu. Hákon Ingi Halldórsson var ekki í hópnum í síðasta leik en snéri aftur og sýndi hve mikilvægur hlekkur hann er; þessi snjalli, örvhenti hornamaður var markahæstur ásamt Brynjari Hólm Grétarssyni, þeir gerðu sex mörk hvor.

Mörk Vals: Magnús Óli Magnússon 8, Arnór Snær Óskarsson 7 (þar af 3 úr víti), Allan Norðberg 4, Bjarni í Selvindi 4, Þorgils Jón Svölu Baldursson 3, Dagur Árni Heimisson 2, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1, Daníel Montoro 1, Andri Finnsson 1.

Varin skot skv. HBStatz: Björgvin Páll Gústavsson 7 (þar af 1 víti), Jens Sigurðarson 2.

Mörk Þórs: Hákon Ingi Halldórsson 6, Brynjar Hólm Grétarsson 6, Hafþór Már Vignisson 5, Þórður Tandri Ágústsson 3, Sigurður Ringsted 2, Halldór Kristinn Harðarson 2, Þormar Sigurðsson 2, Oddur Gretarsson 2 (annað úr víti), Kári Kristján Kristjánsson 1, Arnór Þorri Þorsteinsson 1.

Varin skot skv. HBStatz: Nikola Radivanovic 11.

Öll tölfræðin frá HBStatz

Staðan í deildinni

  • Þórsarar fá Vestmannaeyinga í heimsókn kl. 15.00 næsta sunnudag. Eftir það tekur við langt jóla- og Evrópumeistaramótsfrí. Deildin hefst ekki á ný fyrr en í byrjun febrúar.