Fara í efni
Handknattleikur

FH og Þór/KA buðu upp á markasúpu

Tímamótaleikur! Margrét Árnadóttir, hér með boltann í Boganum fyrr í sumar, gerði 25. mark sitt í efstu deild í gær, í 200. leiknum fyrir Þór/KA. Hulda Björg Hannesdóttir, til vinstri, átti eina stoðsendingu í gær - í 230. leiknum fyrir Þór/KA. Mynd: Ármann Hinrik

Boðið var upp á markaskúpu þegar FH og Þór/KA mættust á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í gær í Bestu deild kvenna, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Sex mörk voru gerð í fyrri hálfleik, staðan 3:3 að honum loknum, en súpan var töluvert bragðdaufari í seinni hálfleik; þá urðu mörkin aðeins tvö og illu heilli fyrir norðankonur gerðu FH-ingar þau bæði. Lokatölur því 5:3 heimaliðinu í vil.

Þór/KA hefur tapað öllum þremur leikjunum eftir EM-hléið langa en liðið er þrátt fyrir það enn í fjórða sæti deildarinnar sem fyrr. Þór/KA er með 18 stig að loknum 13 leikjum, jafn mörg og Valur en betri marktölu. Breiðablik er lang efst í deildinni með 37 stig, FH hefur 31 og Þróttur er í þriðja sæti með 28 en gæti jafnað FH að stigum með sigri á Tindastóli á morgun.

Viðureign í Kaplakrika var bráðfjörug, einkum fyrri hálfleikurinn eins og nærri má geta. Það er magnað að gera þrjú mörk gegn FH á útivelli og alla jafna ætti það að duga til sigurs, en varnarleikur Þórs/KA var því miður ekki nógu góður í gær, eins og stundum áður í sumar, og öll mörkin fimm afar klaufaleg frá sjónarhóli liðsins. Því fór sem fór. 

Mörkin komu í knippum í fyrri hálfleik, ef svo má segja:

  • Thelma Lóa Hermannsdóttir kom FH í 1:0 á 11. mín. en Sonja Björg Sigurðardóttir jafnaði á 13. mín. af örstuttu færi eftir að markvörður FH varði frá Huldu Ósk Jónsdóttur.
  • Sandra María Jessen kom Þór/KA í 2:1 á 25. mín. Hulda Björg Hannesdóttir tók aukaspyrna langt úti á velli, sendi boltann inn í miðjan vítateig og Sandra María skoraði með skalla. FH jafnaði aðeins einni mín. síðar þegar Maya Hansen skoraði.
  • Thelma Lóa gerði annað mark sitt og þriðja mark FH á 31. mín. en aftur leið aðeins mínúta á milli marka því Margrét Árnadóttir breytti stöðunni í 3:3 með föstu skoti úr miðjum vítateig eftir sendingu Huldu Óskar Jónsdóttur.
  • Thelma Lóa kom FH í 4:3 á 58. mín. eftir einfalda sókn: Löng sending fram völlinn, bæði varnarmaður og markvörður Þórs/KA hikuðu og Thelma var ekki í miklum vandræðum með að gera þriðja mark sitt í leiknum.
  • Ingibjörg Magnúsdóttir innsiglaði sigur FH með fimmta markinu skömmu fyrir leikslok þegar Þór/KA lagði aukinn þunga í sóknarleikinn til að freista þess að jafna og ná í stig en það fór á annan veg.

Skemmtileg tölfræði

Á heimasíðu Þórs/KA er í dag fjallað um ýmiskonar skemmtilega tölfræði eftir leikinn í Hafnarfirði. Þetta er meðal þess sem fram kemur:

  • Mark Margrétar Árnadóttur var það 25. sem hún gerir í efstu deild.
  • Þetta var 200. leikur Margrétar með Þór/KA!
  • Viðureignin í gær var 100. leikur Kimberley Dóru Hjálmarsdóttur með Þór/KA.

Ýmislegt fleira skemmtilegt í þessum dúr má finna á heimasíðu liðsins - sjá hér neðst í umfjöllun um leikinn.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni