Fara í efni
Handknattleikur

Þór/KA mistókst að spyrna sér frá Val

Leikmenn Þórs/KA fagna eftir að Sandra María Jessen jafnaði með marki úr vítaspyrnu. Mynd: Ármann Hinrik

Valur sigraði Þór/KA 2:1 í Boganum í fyrrakvöld í Bestu deild kvenna, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. „Stelpunum okkar“ mistókst því að mjaka sér næst efstu liðum deildarinnar og spyrna sér um leið frá Val, Stjörnunni og Fram. Lið Þórs/KA náði sér ekki á strik í leiknum og súrt var að tapa fyrir Val sem hefur verið í basli í sumar og teflir fram liði sem er ekki sérlega sterkt í augnablikinu.

Sex efstu liðin halda áfram keppni um Íslandsmeistaratitilinn að loknum 18 umferðum, Þór/KA á að sjálfsögðu heima í efri hlutanum en baráttan gæti þó orðið býsna hörð og hvert stig er mikilvægt.

Breiðablik er í efsta sæti með 34 stig að loknum 13 leikjum, Þróttur er með 28 eftir 12 leiki og FH með 25 stig eftir 11 leiki. Þar á eftir koma Þór/KA og Valur með 18 stig, „Stelpurnar okkar“ hafa lokið 12 leikjum en Valsmenn 13. Stjarnan er í sjötta sæti með 15 stig, Fram hefur jafn mörg stig í sjöunda sæti og Tindastóll er í áttunda sæti með 13 stig.

Þór/KA jafnar; Sandra María Jessen skorar úr vítaspyrnu þegar um það bil 20 mínútur voru eftir. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Besta deildin er nýbyrjuð á ný eftir rúmlega mánaðar hlé vegna Evrópumóts landsliða. Þór/KA tapaði 2:0 fyrir Tindastóli á útivelli 24. júlí og lék síðan ekki aftur fyrr en hálfum mánuði seinna, gegn Val í Boganum. Erfitt er að halda almennilegum takti þegar svo langt líður á milli leikja og það sást á liðinu; stelpurnar voru óákveðnar á löngum köflum, þorðu ekki að halda boltanum eins og þær eiga að geta heldur var honum oft sparkað fram völlinn upp á von og óvon – án sjáanlegs tilgangs. Þær geta miklu betur og sýna vonandi hvað í þeim býr á lokasprettinum.

Sandra María Jessen fékk dauðafæri strax á 13. mínútu þegar hún fékk sendingu frá Sonju Björgu Sigurðardóttur inn fyrir Valsvörnina en Tinna Brá Magnúsdóttir varði mjög vel í horn. Fyrri hálfleikurinn var annars í rólegri kantinum allt þar til minnstu munaði að Valur skoraði eftir rúman hálftíma en heimamönnum tókst að bægja hættunni frá á síðustu stundu. Á lokamínútum hálfleiksins var Þór/KA svo í tvígang nálægt því að skora, fyrst þrumaði Henríetta Ágústsdóttir hárfínt framhjá og síðan var bjargaði á línu eftir skot Söndru Maríu.

Víti! Boltinn fer í upphandlegg – eða öxl – Margrétar Árnadóttur eftir hornspyrnu og Valur gerði sigurmarkið úr vítaspyrnu sem dæmd var. Mynd: Ármann Hinrik

Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skorar úr vítaspyrnunni og tryggir Val sigur þegar nokkrar mínútur lifðu leiks. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Eftir daufan fyrsta stundarfjórðung seinni hálfleiks færðist fjör í leikinn. Valsmenn fengu tvö ákjósanleg færi til að skora en tókst ekki, en Jordyn Rhodes braut ísinn á 71. mín. Skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf. Nokkrum augnablikum áður vildu leikmenn Þórs/KA fá vítaspyrnu vegna bakhrindingar þegar Sonja Björg skallaði að marki en Sigurður Hjörtur Þrastarson dómari var þeim ekki sammála.

Þór/KA fékk hins vegar víti nokkrum mínútum síðar þegar Málfríður Anna Eiríksdóttir handlék knöttinn innan vítateigs og Sandra María Jessen skoraði af miklu öryggi. Ekki liðu nema fáeinar mínútur þar til Sigurður benti aftur á vítapunktinn en illu heilli var það hinum megin á vellinum. Eftir hornspyrnu fór boltinn í upphandlegg – eða öxl – Margrétar Árnadóttur og dómarinn var viss í sinni sök, þrátt fyrir að Margrét og samherjar hennar héldu því fram að ekki væri ástæða til þess að dæma. Valsmenn skiptu sér ekki af þeim rökræðum heldur steig Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir fram og gerði sigurmarkið úr vítinu.

Leikmenn Þórs/KA og þjálfarar voru ósáttir við ákvörðun dómarans, og raunar ekki í þetta eina skipti, en ekki tjáði að deila við hann frekar en fyrri daginn. Sá sem þetta skrifar getur ekkert fullyrt í þessu sambandi, sá atvikin ekki nægilega vel og hefur ekki fundið upptöku af leiknum á sjónvarprásum Sýnar þrátt fyrir ítrekaða leit. Mynd Ármanns Hinriks að ofan sker varla endanlega úr um það hvort boltinn fór í upphandlegg eða öxl, eða hvort Margrét lék boltanum eins og það er kallað, en hugsanlega geta áhugamenn um anatómíu haldið áfram rökræðum um það hvar öxlin endar og upphandleggurinn tekur við!

Angela Mary Helgadóttir hægri bakvörður Þórs/KA og Fanndís Friðriksdóttir. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Leikskýrslan

Staðan

Leikirnir sem Þór/KA á eftir þar til deildinni verður skipt upp:

Þriðjudag 12. ágúst
FH - Þór/KA

Fimmtudag 21. ágúst
Þór/KA - FHL

Laugardag 30. ágúst
Þór/KA - Fram

Laugardag 6. september
Stjarnan - Þór/KA

Föstudag 12. september
Þór/KA - Þróttur

Laugardag 20. september
Breiðablik - Þór/KA