Fara í efni
Golf

Sveit GA í úrslitum um Íslandsmeistaratitil

Mynd: golf.is.

Keppni í 1. deild karla í Íslandsmóti golfklúbba lýkur á Jaðarsvelli í dag þegar sveit GA mætir sveit Golfklúbbs Mosfellsbæjar í úrslitaviðureign um Íslandsmeistaratitilinn. Mótið hófst á fimmtudag.

Átta lið etja kappi í 1. deild karla og var þeim skipt í tvo riðla þar sem tvö efstu lið úr hvorum riðli fóru áfram í undanúrslit. Hvert lið lék þannig þrjá leiki í riðlinum og í hverri viðureign voru leiknir tveir fjórmenningsleikir og þrír tvímenningsleikir. Sveit GA komst naumlega í undanúrslitin, eftir að hafa endað í 2. sæti riðilsins, jöfn sveit Golfklúbbsins Keilis með 1,5 vinninga í þremur vinningum. GA vann Golfklúbb Selfoss, 3,5-1,5, tapaði fyrir GKG, 1,5-3,5 en GA og Keilir skildu jöfn, 2,5,-2,5.

Ríkjandi Íslandsmeistarar, sveit GKG, unnu A-riðilinn og GA endaði í 2. sæti. Sveit Golfklúbbs Reykjavíkur vann hinn riðilinn og Golfklúbbur Mosfellsbæjar endaði í 2. sæti. Báðar sveitirnar sem lentu í 2. sæti riðlanna sigruðu sigurvegara riðlanna í undanúrslitum og mætast í viðureign um Íslandsmeistaratitilinn í dag. 

Viðureign GA og GR í undanúrslitum var jöfn og æsispennandi og réðust úrslit í bráðabana í þremur leikjum af fimm. Tumi Hrafn Kúld tryggði GA sigurinn í undanúrslitaviðureigninni á 25. holu. GA vann viðureignina með þremur vinningum gegn tveimur.

Sveit GA skipa Heiðar Davíð Bragason, Tumi Hrafn Kúld, Eyþór Hrafnar Ketilsson, Víðir Steinar Tómasson, Veigar Heiðarsson, Skúli Gunnar Ágústsson, Lárus Ingi Antonsson og Valur Snær Guðmundsson. Liðsstjóri er Örvar Samúelsson. Keppt hefur verið um þennan titil allar götur frá árinu 1961 og hefur sveit GA unnið titilinn átta sinnum og gæti bætt þeim níunda í safnið í dag.

Rástímar í úrslitaviðureigninni eru á bilinu frá kl. 10:30 til 11:10.