Fara í efni
Golf

Hagnaður GA 35 milljónir króna á árinu

Segja má að Golfklúbbur Akureyrar hafi verið sólarmegin á nýliðnu rekstrarári. Og sólin skein eins og svo oft áður á Arctic Open í sumar, mótinu sem jafnan er kennt við miðnætursólina. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Rekstur Golfklúbbs Akureyrar (GA) gekk afar vel á nýliðnu rekstrarári (1. nóvember 2024 til 31. október 2025). Hagnaður var tæpar 35 milljónir króna eftir fjármagnsliði, samanborið við 18,8 milljóna króna hagnað árið áður. Tekjurnar jukust mikið og námu rúmlega 355 milljónum, sem er 34% aukning frá árinu áður, en þá voru þær 265 milljónir. Rekstrargjöld hækkuðu um 24%, fóru úr tæpum 244 milljónum í fyrra upp í 303 milljónir í ár. Þetta kom fram á aðalfundi GA sem haldinn var í vikunni.

Á aðalfundinum voru stjórnarmeðlimir endurkjörnir, sem og Bjarni Þórhallsson sem formaður. Í rekstraráætlun næsta árs eru tekjurnar áætlaðar 399,5 milljónir króna og að rekstrarniðurstaða verði svipuð og á nýliðnu ári.

Í frétt á vef GA segir að reksturinn hafi gengið afar vel og niðurstaðan verið vel umfram áætlanir. Mikill vöxtur hafi verið í spiluðum hringjum á vellinum og félögum í klúbbnum hefur aldrei fjölgað jafnmikið á einu ári.

  • GA félagar léku 31.744 hringi á Jaðarsvelli í sumar sem er um 7.000 fleiri hringir en árið áður
  • Alls voru spilaðir 37.829 hringir á vellinum í ár, sem er það mesta frá upphafi og aukning um rúmlega 7.000 hringi frá metárinu árið áður.

Á árinu náðist sá langþráði áfangi í sögu klúbbsins að öll starfsemin er komin á einn stað. Nýbygging við Jaðar var tekin í notkun og þar er glæsileg inniaðstaða fyrir kylfinga en mörg undanfarin ár hefur inniaðstaðan verið í kjallara Íþróttahallarinnar. „Það er ótrúlega gaman að sjá hversu miklu lífi breytt og bætt aðstaða hefur glætt starfið hjá GA. Inniaðstöðunni hefur verið tekið ótrúlega vel og mikil ánægja með. Það er afar gaman að sjá hversu vel hún hefur tekist. Í vor var svo sett upp Trackman Range á æfingasvæðinu og það jók einnig notkunina mikið, tilkoma skjánna í hvern bás eykur upplifunina og gerir æfinguna tilkomumeiri,“ segir Steindór Kr. Ragnarsson framkvæmdastjóri GA í fréttinni.