Fara í efni
Gervigreind - pistlar

Förustafir – vinsæl heimilisdýr á Iðavelli

Myndir: Rakel Hinriksdóttir

Förustafir eru með lengstu skordýrum í heimi, og víða eru þeir vinsæl gæludýr þó að við séum ekki vön þeim hér á Íslandi. Nú eru nokkrir slíkir orðnir heimilisdýr og vinir barnanna á Iðavelli, leikskóla á Oddeyri. „Hluti starfsfólksins okkar eru af erlendum uppruna, og einn þeirra útvegaði okkur þessa förustafi,“ segir Anna Lilja Sævarsdóttir skólastjóri við blaðamann akureyri.net

Blaðamaður heimsótti krakkana á elstu deild leikskólans, Jötunheimi, en þar eru förustafirnir til heimilis í gömlu fiskabúri. Við fyrstu sýn virðist þetta einungis vera glerílát með trjágreinum, en þegar nánar er að gáð koma dýrin sérstöku í ljós. Tveir eru mjög stórir, eflaust um 9-10 cm langir, og svo eru fleiri í ýmsum stærðum, niður í pínulitla.

 

Ylfa er á Jötunheimi, og hún er mjög hrifin af förustöfunum. Hér heldur hún á þeim stærsta. Mynd: RH

Mismikil gleði, en engin hræðsla

Förustafirnir eru rólyndisdýr, þeir hreyfa hvorki legg né lið fyrr en þeir eru teknir upp, og að sögn starfsfólks eru krakkarnir flestir mjög hrifnir af þeim og halda á þeim reglulega. „Sum eru ekkert spennt fyrir þessu, en það er enginn hræddur við þá, enda eru þeir meinlausir og hreyfa sig mjög hægt,“ segir Anna Lilja. 

Það er yfirleitt ekkert mikil sorg þegar þeir deyja

Það er svolítið gaman að fylgjast með krökkunum sækja förustafina í búrið og láta þá labba á lófunum á sér. Stafirnir fálma á undan sér og hafa greinilega nokkuð sterkt grip með fótunum. Um leið og þeim er skilað í búrið finna þeir sér hentuga grein, stilla sér upp og eru þá alveg grafkyrrir. Einn starfsmaður á deildinni bendir á að tilgangur lífs þessa dýra sé að vera ósýnileg, en þeir líta bókstaflega út eins og trjágrein til þess að dyljast fyrir óvinum.

 

Hér er förustafurinn að lifa sínu besta lífi, áhyggjulaus og verður eitt með greinunum. Mynd: RH

Hægt að læra ýmislegt af förustöfum

„Þetta eru þægileg gæludýr fyrir okkur, það þarf ekki mikið að hafa fyrir þeim,“ segir Anna Lilja. „Svo er gaman að segja frá því að það er til bók, eftir sama höfund og skrifaði bækurnar um Greppikló, sem er mjög þekkt, þar sem aðalsöguhetjan er förustafur. Við höfum þá getað tengt okkar förustafi við barnabókmenntir og það er ýmis lærdómur sem má draga af þessum skemmilegu dýrum. Krakkarnir fylgjast með þeim verða til, stækka og breytast.“

„Krakkarnir eru nú ekki beint að tengjast þeim tilfinningaböndum, en þeir lifa um það bil 10-12 mánuði,“ segir Anna Lilja. „Það er yfirleitt ekkert mikil sorg þegar þeir deyja, börn eru svo beinskeytt með það.“ Ekki hafa förustafirnir verið að fá nöfn, en Anna rifjar þó upp að það sé ekki langt síðan að leikskólinn ættleiddi risakónguló sem kom til bæjarins með vörubretti frá útlöndum. Sú fékk nafnið Snotra og lifði góðu lífi á húsflugum Iðavallar í tvö ár. 

 

Förustafirnir eru af ýmsum stærðum, hér er unglingur á ferð um lófa Ylfu. Mynd: RH

Hárkolluvillan: Af Tyrklandsferðum og gervigreind

Magnús Smári Smárason skrifar
28. janúar 2026 | kl. 10:00

Ekki „gervigreind“ heldur upplýsingaverksmiðjur

Magnús Smári Smárason skrifar
12. ágúst 2025 | kl. 14:30

Með tæknina mér við hlið: Hlutverk gervigreindar í skólastarfi

Ástrós Guðmundsdóttir skrifar
07. janúar 2025 | kl. 17:30

Aðventa

Magnús Smári Smárason skrifar
10. desember 2024 | kl. 16:16

Magnús verkefnastjóri í gervigreind við HA

Skapti Hallgrímsson skrifar
03. desember 2024 | kl. 15:40

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30