Fara í efni
Framhaldsskólar

Þór stigi frá efsta sæti eftir sigur á ÍR

Sigfús Fnnar Gunnarsson sem hér er með boltann í sigrinum á Völsungi í síðustu umferð, gerði markið mikilvæga sem tryggði Þórsurum sigur á ÍR í dag. Mynd: Ármann Hinrik

Þórsarar unnu fjórða deildarleikinn í röð þegar þeir lögðu ÍR-inga 1:0 í Reykjavík í dag og eru áfram í öðru sæti Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þór er nú aðeins einu stigi á eftir toppliði Njarðvíkur sem tapaði í dag fyrir Þrótti og svo skemmtilega vill til að um næstu helgi taka Þórsarar á móti Njarðvíkingum í Boganum. Alvöru toppslagur það!

Sigur Þórs í dag var mjög sanngjarn, liðið var mun betra en heimamenn í ÍR þótt ekki væri mikið um hættuleg tækifæri upp við mark Reykjavíkurliðsins. Það var Sigfús Fannar Gunnarsson sem gerði eina markið þegar 15 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik; eftir gott spil fram völlinn sendi vinstri bakvörðurinn Ýmir Már Geirsson á Sigfús sem hafði betur í kapphlaupi við varnarmanninn Marc McAusland og renndi boltanum í fjærhornið, undir Vilhelm Þráin markvörð. Þetta var 11. mark Sigfúsar í deildinni í sumar.

Allt stefnir í æsispennandi baráttu efstu liði deildarinnar. Efsta liðið að loknum 22 umferðum fer beint upp í Bestu deildina eins og áður hefur komið fram en fjögur næstu fara í umspil um annað laust sæti.

Þróttur, sem vann Njarðvík í dag sem fyrr segir, er í þriðja sæti aðeins einu stigi á eftir Þór og í lokaumferðinni mætast einmitt Þróttarar og Þórsarar í Reykjavík. 

Þór á þessa leiki eftir í deildinni:

  • Þór - Njarðvík
  • Selfoss - Þór
  • Þór - Fjölnir
  • Þróttur - Þór

Leikskýrslan

Staðan í deildinni