Fara í efni
Umræðan

Seglin við Pollinn og ráðgefandi íbúakosning

Seglin við Pollinn og ráðgefandi íbúakosning

Í dag hefst ráðgefandi íbúakosning vegna uppbyggingar á Gránufélagsreitnum svokallaða. Kosningin er rafræn og stendur til 31. maí næstkomandi. Umrætt svæði hefur um áratuga skeið verið olnbogabarn í skipulagsmálum Akureyrar og fjölmargar tilraunir til að skipuleggja það og byggja upp hafa runnið út í sandinn.

Í lok árs 2017 lagði SS Byggir ehf, öðru sinni til atlögu við uppbyggingu svæðisins. Félagið taldi að gildandi aðalskipulag væri svo óhagkvæmt að ómöglegt væri að byggja eftir því og fékk okkur hjá Zeppelin arkitektum til liðs við sig til að þróa nýjar hugmyndir. Til að einfalda málið og fækka núningsflötum ákvað félagið að þessu sinni, að takmarka vinnu sína við Gránufélagsreitinn, enda á félagið stóran hluta hans, en ekkert þar fyrir utan.

Eins og áður hefur komið fram voru unnar þrjár tillögur. Fyrst var lögð var fram tillaga með fimm turnum 6-13 hæðir. Næst var lögð fram tillaga að „roundbyggð“ með tilheyrandi inngarði. Þrátt fyrir mesta byggingarmagnið hafnaði SS Byggir tillögunni, enda taldi félagið að illa myndi ganga að selja þess háttar íbúðir og vildi ekki taka þá fjárhagslegu áhættu. Þá var lögð fram tillaga að Seglunum við Pollinn og var hún kynnt á fjölmennum fundi í Hofi: Fjórar misháar byggingar sem minna eiga á segl eða seglskip á Pollinum og voru tilvísun í segl skútna Gránufélagsins; enda byggingarnar í bakgarði Gránufélagshússins.

Í aðdraganda kosningar endurhönnuðum við tillöguna sem sýnd var í Hofi og lækkuðum meðal annars byggingarnar úr sjö til ellefu hæðum, í sex til níu hæðir. Engu að síður hefur hæð þeirra verið gagnrýnd af einhverjum og þær jafnvel verið kallaðar skýjakljúfar. Það mætti vera mjög lágskýjað á Akureyri til að þær stæðu undir slíku nafni, en vissulega myndu þær rísa upp yfir nærliggjandi byggð og breyta ásýnd bæjarins, og Oddeyrar sérstaklega. Að okkar mati myndu þær styrkja hana og gera kröftugri, vera birtingarmynd framsækins höfuðstaðar Norðurlands. Breytingar eru ekki endilega slæmar, en víst er að vanda þyrfti til verka.

Sumir vilja meina að Seglin við Pollinn myndu yfirskyggja Gránufélagshúsið, en við höllumst að því að mynd Gránufélagshússins yrði skýrari, svart húsið á hvítu segli. Þá sé það ekki rétt sem sumir hafa haldið fram, að húsin muni takmarka frekari uppbyggingu svæðisins vegna skuggavarps. Í því sambandi er rétt að geta þess að húsin eru þannig löguð, breið neðst og mjókka upp, að af þeim stafar lítill skuggi miðað við hús af sömu hæð. Við teljum að byggingarnar yrðu fyrsta skref í hraðari uppbyggingu og virðisauka svæðisins, enda muni menn fljótt sjá kostina sem henni fylgja, meðal annars, í fjölbreyttari mannlífsfánu. Því er eðlilegast og öruggast að byrja á Gránufélagsreitnum, með áberandi byggingum, nýju kennileiti, enda um að ræða eitt að hliðunum að Akureyri. Í ljósi staðsetningar og þess hversu áberandi byggingarnar yrðu, þyrfti að vanda sérstaklega til við hönnun og byggingu þeirra. Gera þyrfti kröfu um ríka samvinnu við skipulagssvið Akureyrar í því efni.

Akureyrarbær hefur opnað sérstakt vefsvæði og greinir svo frá að þar séu allar upplýsingar á einum stað. Það má að einhverju leiti til sanns vegar færa, en hitt er jafnljóst að þar er ekkert fjallað um vandræðaganginn og sorgarsögu uppbyggingar svæðisins undanfarna áratugi, sem hefur leitt til mikillar hnignunar þess. Þar er verðugt íhugunarefni, sem af má draga þá ályktun að uppbygging svæðisins er ekki einfalt úrlausnarefni, meðal annars vegna flókins eignarhalds og dýrra uppkaupa. Slíkur aukakostnaður veldur því að byggingafélög þurfa að fá að byggja söluvænlegar íbúðir og í meira magni en annars væri. Annars verður ekkert byggt, nema þá aðeins að bæjaryfirvöld séu tilbúin til að kaupa upp lóðir og selja aftur við lægra verði, og það er í hæsta lagi ólíklegur möguleiki.

Þessi grein er sú þriðja sem ég skrifa vegna kosningarinnar, sem hefst í dag. Þær hef ég skrifað til þess að kynna betur þær hugmyndir sem lágu að baki tillögunni Seglin við Pollinn og einnig til að hvetja bæjarstjórn til að gefa Akureyringum möguleika á að kjósa um kosti sem leitt hefðu til niðurstöðu. Að kjósa þá tillögu, með breytingum, sem kynnt var í Hofi eða ekki. Það væri enda lágmarks kurteisi gagnvart Akureyringum og þeim sem hafa eytt ómældum tíma og peningum í tillögur að uppbyggingu reitsins. Ekki er öðrum til að dreifa sem það hafa gert og eru bærir til að byggja hann upp. Við því hefur ekki verið orðið.

Núverandi bæjarstjórn Akureyrar hefur hvorki skoðun né forystu í málinu og treysti sér ekki til að láta kjósa um tillögu okkar, sem rakleiðis hefði leitt til löngu tímabærrar uppbyggingar Gránufélagsreits. Kostirnir sem í boði eru, skilja öll áform um uppbyggingu í lausu lofti, enda óvíst að byggingafélagið SS Byggir haldi málinu til streitu, verandi komið með hugann annað, eftir áralangt og árangurslítið skak á Oddeyrinni.

Við sem höfum komið að þessu verkefni vitum fyrir víst að fjölmargir vilja búa í Seglunum við Pollinn, enda eru íbúðir í slíkum byggingum miklum gæðum búnar, bjartar og með miklu útsýni og því feykivinsælar og að auki er staðsetningin góð. Fjölmargir vilja líka sjá Oddeyrina loks byggða upp með myndarlegum hætti, með meiri þjónustu, afþreyingu og fjölbreyttara mannlífi. Ekki má horfa framhjá öllu því ágæta fólki, þótt hinir neikvæðu séu háværari. Einungis góð kosning 25 metra tillögunnar gæfi byggingaráformum á Oddeyri byr í seglin. Ég hvet Akureyringa til að kjósa.

Að lokum vil ég benda á yfirgripsmikla grein sem birtist á kaffid.is þann 2. nóvember 2019. Hún er enn í fullu gildi og ber nafnið: SS Byggir svarar gagnrýnendum og útskýrir hugmyndina að Eyrinni

Virðingarfyllst,

Orri Árnason er arkitekt hjá hjá Zeppelin arkitektum

Myndband af nýjustu tillögu Zeppelin arkitekta 

Réttindi neytenda á tímum Covid

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 13:00

Jónas Hallgrímsson

Tryggvi Gíslason skrifar
16. nóvember 2020 | kl. 07:15

Jón Sveinsson - Nonni

Haraldur Þór Egilsson skrifar
17. nóvember 2020 | kl. 10:30

Matthías Jochumsson

Tryggvi Gíslason skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 17:09

Íslenska, nútími og lestur

Sverrir Páll skrifar
19. nóvember 2020 | kl. 10:10

Bílastæðaklukkur í miðbæ Akureyrar

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar
20. nóvember 2020 | kl. 10:00