Fara í efni
Umræðan

Margar myndir og áhrif forvarna

Forvarnir hafa margar myndir og geta haft áhrif á allt samfélagið. Oft er talað um að börnin læri af því sem fyrir þeim er haft, vissulega er margt til í því og mikilvægt að huga að því að styðja þarf vel við framtíðina.

Heilbrigð sjálfsmynd barna

Heilbrigð sjálfsmynd er sterkasta vopn hvers einstaklings til þess að takast á við þær áskoranir sem lífið býður upp á.

Börn með sterka sjálfsmynd
Börnum sem líður vel í eigin skinni eiga auðveldara með að standast neikvæðan hópþrýsting brosa oftar og njóta lífsins. Þessi börn eru bjartsýn og hugsa í lausnum og hafa gaman af að leysa úr þeim verkefnum sem fyrir þau eru lögð. Þau treysta umhverfi sínu og segja frá þegar eitthvað sem þeim finnst óþægilegt gerist.

Börn með brotna sjálfsmynd
Aftur á móti er algengt að börn með veika sjálfsmynd þrói með sér kvíða og reiðitilfinningar. Börnum sem hafa veika sjálfsmynd finnst þau oft vera lítils virði og að þau geti ekki gert neitt rétt sem verður þess valdandi að þau verða döpur og einangra sig. Þau segja gjarnan „ég get ekki“ þegar þeim eru rétt verkefni. Það er auðveldara að misbjóða þeim eða fá þau til að taka þátt í einhverju sem þeim finnst óþægilegt og þau segja síður frá. Algengt er að þau vantreysti umhverfinu.

Forvarnargildi
Forvarnargildi heilbrigðar sjálfsmyndar er mjög mikið. Barn með öfluga sjálfsmynd getur staðist hópþrýsting unglingsáranna og sagt nei við óæskilegum áhrifum á líf sitt. Barn með veika sjálfsmynd er oft illa sett félagslega og fylgir því hópnum þó um óæskilega hegðun sé að ræða.

Brotna sjálfsmynd má alltaf vinna með og styrkja hvort sem er hjá börnum eða fullorðnum. Sterk sjálfsmynd er undirstaða þess að skapa sér það líf sem einstaklingurinn vill lifa í sátt við sjálfan sig og aðra.

Með því að styrkja sjálfið skapar einstaklingurinn bestu útgáfuna af sér.

Efldu sjálfsmynd barnsins þíns 

Ráð til foreldra sem nýtast til að efla sjálfsmynd barna
Foreldrar þekkja börnin sín best og leggja sig alla fram við að gefa þeim gott veganesti út í lífið. Mikilvægt er að foreldrar hafi gott sjálfstraust og hlusti á innsæi sitt við uppeldi barna sinna. Foreldrar eru mikilvægustu fyrirmyndir barna sinna því börn læra af því sem fyrir þeim er haft og því geta foreldrar byggt upp sterka sjálfsmynd hjá börnum sínum með eigin athöfnum.

Börnin heyra og sjá hvernig foreldrar bregðast við daglegum athöfnum í lífinu
Gættu orða þinna, börn eru næm á orð foreldra sinna. Mikilvægt er að hrósa börnum fyrir vel gerða vinnu en jafn mikilvægt er að hrósa fyrir átakið sem þau lögðu á sig til að framkvæma. T.d ef eitthvað mistekst hjá barninu þá er gott að hrósa því fyrir að reyna, það byggir upp trú hjá barninu um að æfingin skapi meistarann.

Börn læra það sem fyrir þeim er haft
Ef foreldri er neikvætt og niðurbrjótandi í eigin garð er það lærdómurinn sem barnið nemur. Foreldrar eru speglar barna sinna. Vertu jákvæð fyrirmynd. Vertu með skýr en sanngjörn mörk, börn upplifa öryggi í mörkunum. Börn vita til hvers er ætlast af þeim þegar mörk eru skýr en óljós mörk valda þeim óöryggi og jafnvel kvíða. Börn sem búa við skýr mörk eru líkleg til þess að tileinka sér góðan sjálfsaga og verða sterkir einstaklingar.

Gefðu barninu þínu tíma
Talaðu við það og hlustaðu á það. Börn vilja fá að hafa skoðun og vilja að hlustað sé á þau. Það að hlusta á barn þitt þýðir ekki að þú segir endilega já en það eflir barnið í að nefna langanir sýnar og læra að taka við svarinu hvort sem svarið er nei eða já. Útskýrðu fyrir barninu þínu af hverju svarið er nei eða já. Börn læra líka að bera virðingu fyrir öðrum þegar borin er virðing fyrir þeim. Að hlusta á aðra manneskju er að sýna virðingu.

Sýndu barninu tilfinningar þínar og samþykktu tilfinningar þess
Tilfinningalegt uppeldi er mjög mikilvægt. Það styrkir sjálfsmynd að barn þekki tilfinningar sínar og fái viðurkenningu fyrir því að það sé eðlilegt að upplifa bæði jákvæðar og neikvæðar tilfinningar. Verðu tíma með barninu þínu. Börnum finnst gott að vera með foreldrum sínum og það á sér stað mikilvæg tengslamyndun í samverustundunum sem börn og foreldrar búa að alla tíð. Hafðu barnið með í athöfnum heimilisins, t.d. taka þátt í að ákveða hvað er í matinn.

Gerið matartíma að samverustund þar sem allir fá innsýn inn í dag hvers annars
Barn mótast af þeim aðstæðum sem það býr við og því er mikilvægt að styðja við foreldra í foreldrahlutverkinu.

Það er án efa samfélagslega hagkvæmt að fjárfesta í framtíðinni með því að leggja vel inn hjá ungum foreldrum og börnum þeirra. Það hefur forvarnarlegt gildi til framtíðar og getur dregið úr margvíslegum vanda t.d ofbeldi, neyslu vímuefna og annarri áhættuhegðun.

Kristín Snorradóttir er teymisstjóri Bjarmahlíðar á Akureyri

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15

Ómenning í fjallinu

Adolf Ingi Erlingsson skrifar
12. apríl 2024 | kl. 11:25

Elínborg – meðmæli með biskupsefni

Björg Ágústsdóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 09:15

Í þágu ME-sjúklinga

Freyja Magnúsdóttir og Pétur Þór Jónasson skrifa
10. apríl 2024 | kl. 05:00

Umhyggja, kærleikur og mennska

Elínborg Sturludóttir skrifar
08. apríl 2024 | kl. 16:03