Fara í efni
Umræðan

Landsnet vill háspennulínuna ofanjarðar að Rangárvöllum

Móahverfið nýja verður þar sem græni hringurinn er dreginn. Rauða línan sýnir um það bil hvernig Blöndulína 3 mun liggja að Rangárvöllum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Landsnet gerir ráð fyrir loftlínu í landi Akureyrar allt að spennistöð á Rangárvöllum, athafnasvæði Norðurorku við Hlíðarfjallsveg, þegar Blöndulína 3 verður lögð. Fari svo mun línan liggja ofan Giljahverfis og hins nýja Móahverfis. Það samræmist ekki aðalskipulagi Akureyrar og forseti bæjarstjórnar segir mikilvægt að möguleikinn til stækkunar byggðar verði ekki skertur.

Landsnet kynnti í vikunni umhverfismatsskýrslu vegna Blöndulínu 3. Formleg kynning stendur yfir næstu sjö vikur og á þeim tíma getur hver sem er gert athugasemdir við áformin.

  • Með loftlínu er átt við að strengurinn liggi á staurum en sé ekki lagður í jörðu.
  • Blöndulína er öflug háspennulína, 220 kV – vitað mál er að í röku lofti myndast hljóð í slíkum strengjum sem getur borist yfir nærliggjandi íbúðahverfi.
  • Í Hafnarfirði lagði Landsnet Suðurnesjalínu 2 í jörðu á 1,5 km kafla næst íbúðabyggð í Vallahverfi til að minnka áhrifin.
  • Í skýrslunni segir undir mynd, sem tekin er á horni Síðubrautar og Vestursíðu nyrst í bænum, að fjarlægð að línu sé um 3 kílómetrar. Hins vegar mun línan liggja mun nær byggð þegar sunnar dregur, líklega aðeins um 300 metrum ofan hluta hennar.

Blöndulína 3, sem lengi hefur verið í bígerð, er þáttur í því að tengja öflugar virkjanir og mun auka stöðugleika í raforkukerfinu mjög mikið; um er að ræða Blöndulínu 3, Hólasandslínu 3 og Kröflulínu 3 – leiðina allt frá Blönduvirkjun austur að Fljótsdalsvirkjun.

Reglur um hámarkskostnað eiga ekki við í þéttbýli

Aðalvalkostur Landsnets er loftlína alla leið frá Blönduvirkjun að Rangárvöllum á Akureyri og áfram austur. Vegna öryggissjónarmiða  varðandi flug er háspennulínan hins vegar lögð í jörðu sunnan við Akureyrarflugvöll, svo dæmi sé tekið. Hún er raunar lögð í jörðu ofan hesthúsahverfisins Breiðholts, gegnum Naustaborgir og norðan Kjarnaskógar niður að Eyjarðarbraut.

Skv. stefnu stjórnvalda um lagningu raflína er meginreglan sú að notast við loftlínur „nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða umhverfissjónarmiðum.“ Þar segir að meta skuli í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að nota jarðstrengi ef línuleið er innan skilgreinds þéttbýlis.

  • Í umhverfismatsskýrslu Landsnets segir að á leið Blöndulínu sé það einungis innan bæjarmarka Akureyrar sem stefnumörkun stjórnvalda um hámarkskostnaðarman á jarðstreng og loftlínu eigi við. Mat Landsnets leiði hins vegar ekki fram niðurstöðu um að umhverfislegur ávinningur jarðstrengja geti réttlætt allt að 3,5 sinnum dýrari línulögn á þeim kafla.
  • Í stefnu stjórnvalda segir hins vegar að reglan um hámarkskostnaðarmun (á milli loftlínu og jarðstrengs) gildi ekki þegar um sé að ræða skilgreint þéttbýli.

Mynd úr skýrslu Landsnets af því hvernig Blöndulína 3 gæti komið fólki fyrir sjónir. Gert er ráð fyrir að línan verði 3 km frá þessum stað. Í skýrslunni segir: „Mynd gefur til kynna mögulega ásýnd, ekki er um endanlega verkhönnun að ræða.“

 

 

Möguleiki til vaxtar verði ekki skertur

„Aðalskipulag Akureyrar gerir ráð fyrir að línan fari í jörðu frá Rangárvöllum að sveitarfélagsmörkum. Akureyri er eina þéttbýlið á allri hringleið byggðalínunnar og býr við landþrengsli og í mínum huga er mikilvægt að möguleiki Akureyrar til vaxtar verði ekki skertur,“ segir Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, í samtali við Akureyri.net, spurð um viðbrögð við hugmyndum Landsnets.

„Það er ákaflega ánægjulegt að verkefnið skuli vera komið svona langt og að nú hylli í að byggðarlínan verði styrkt. Akureyri og Eyjafjörður allur hefur lengi beðið eftir því að sjá fyrir endan á áralangri vinnu. Það er lögð fram tillaga um loftlínu og þar sem að aðalskipulag Akureyrar gerir ráð fyrir að línan fari í jörðu frá Rangárvöllum að sveitarfélagsmörkum, geri ég ráð fyrir að við munum funda með Landsneti um lausn á því. Akureyri er eina þéttbýlið á allri hringleið byggðalínunnar og býr við landþrengsli og í mínum huga er mikilvægt að möguleiki Akureyrar til vaxtar verði ekki skertur,“ segir Halla Björk.

  • Næstu sjö vikur er hægt að leggja fram umsagnir við áform Landsnets, sem fyrr segir. Að því loknu, og eftir að Landsnets hefur brugðist við þeim umsöfnum, gefur Skipulagsstofnun út álit um umhverfismat framkvæmdarinnar. Þegar álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir þarf að huga að skipulagsbreytingum, þar sem það á við og í kjölfarið vinna að framkvæmdaleyfismálum.

Akureyri.net mun fylgjast grannt með gangi mála.

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15

Ómenning í fjallinu

Adolf Ingi Erlingsson skrifar
12. apríl 2024 | kl. 11:25

Elínborg – meðmæli með biskupsefni

Björg Ágústsdóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 09:15

Í þágu ME-sjúklinga

Freyja Magnúsdóttir og Pétur Þór Jónasson skrifa
10. apríl 2024 | kl. 05:00