Fara í efni
Umræðan

Breyting á reglum um stofn til álagningar fasteignaskatts

Á undanförnum árum hef ég sent frá mér greinar sem fjalla um nauðsynlegar breytingar á fasteignaskatti. Margir hafa verið mér sammála um nauðsyn slíkra breytinga og nú hafa þingmenn og sveitarstjórnarmenn loksins farið að átta sig á nauðsyn þess að gera þurfi verulegar breytingar á lögum.

Sveitarfélögin leggja þennan skatt á flest allar fasteignir, heimili og annað húsnæði. Þessum tekjustofni er ætlað að standa undir óskilgreindri þjónustu sveitarfélaga. Hvergi kemur fram í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til hvers þessar skatttekjur skuli nýta.

Fasteignaskattur er lagður á húsnæði án þess að skilgreint sé í tekjustofnalögum af hverju hann er mun hærri á atvinnuhúsnæði en íbúðarhúsnæði. Röksemdir fyrir mis háum gjaldstofni eftir því hvort um er að ræða íbúðarhúsnæði eða annað húsnæði þarfnast skoðunar.

Allir sem þekkja til breytinga á fasteignamati vita að slíkar breytingar endurspegla verð fasteigna sem ganga kaupum og sölu. Fyrir þá sem eru að selja eignir eða kaupa er þetta ákveðin mælistika. Breytingar sem verða langt umfram almenna verðlagsþróun og launabreytingar auka á útgjöld húsnæðiseigenda. Þessi aðferð við að reikna afgjald af fasteignum í sveitarsjóði, sem byggir á fasteignamati er röng. Sveiflur í fasteignaverði eiga ekki að ákvarða tekjustofna sveitarfélaga. Það þarf líka að hafa í huga að fasteignamat getur líka lækkað. Það er líka óréttlátt að eignir af sömu stærð greiði mismunandi fasteignaskatt eftir aldri eigna í sama sveitarfélagi.

Mörg sveitarfélög hafa breytt frá því fyrirkomulagi að láta fasteignaeigendur greiða önnur fasteignagjöld á grundvelli fasteignamats. Gjaldtakan er nú miðuð við stærðir eigna og gerð og skiptist í fast gjald og fermetragjald. Þetta á við t.d. um fráveitugjald og vatnsgjald hér á Akureyri. Þessar breytingar hafa mælst vel fyrir og sýna hversu einföld slík breyting er í framkvæmd. Árlegar breytingar á þessum gjöldum er eðlilegt að taki mið af breytingum sem verða á neysluvísitölu milli ára. Þetta getur alveg á sama hátt gilt um fasteignaskattinn. Í nútíma upplýsingakerfum er einfalt að halda utan um stærðir fasteigna, breytingar á stærðum og skráða eigendur.

Á Akureyri er fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði 0,33% af fasteignamati húss og lóðar. Fasteignaskattur er 1,32% af ýmsum opinberum byggingum og 1,63% af öðru húsnæði. Nokkrar eignir eru undanþegnar fasteignaskattir. Ef horft er til álagningar fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði á Akureyri og Reykjavík á þessu ári virðist fasteignaskattur á íbúa á sé um kr. 56.725 á Akureyri, en um kr. 40.773 í Reykjavík. Hér er um verulegan mun að ræða.

Nú hafa fulltrúar sveitarfélaga loksins farið að kallað eftir breytingu á núverandi fyrirkomulagi og er það löngu tímabært. Ég tel að þessi leið til að leggja á fasteignaskatt sé einföld og réttlát og komi í veg fyrir stórar sveiflur á tekjustofni og tryggi eigendur og leigjendur fyrir stökkbreytinum gjalda.

Ég hvet sveitarstjórnarmenn og þingmenn til að ígrunda slíka breytingu og auðvelt væri að koma slíku til framkvæmda vegna gjalda á árinu 2023.

Sigurður J. Sigurðsson er fyrrverandi bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar á Akureyri.

Ungir iðkendur íþróttafélaga mæta afgangi hjá bæjarstjórn Akureyrar

Guðmundur Oddsson skrifar
28. maí 2023 | kl. 08:00

Erindi í messu á degi eldri borgara

Jóhannes Geir Sigurgeirsson skrifar
21. maí 2023 | kl. 06:00

Essin stóru í uppstigningardagsviku

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
19. maí 2023 | kl. 16:00

Meira um brjóst og rassa

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
19. maí 2023 | kl. 14:14

Þegar að lífið fölnar í samanburði ...

Skúli Bragi Geirdal skrifar
09. maí 2023 | kl. 11:24

Megum við lifa mannsæmandi lífi?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
08. maí 2023 | kl. 10:00