Boltakonur saman á kvennakvöldi

Boltakonur í Þór og KA taka sig saman og halda sameiginlegt kvennakvöld í Sjallanum á laugardagskvöld, en þar sem jafnt verður eftir venjulegan leiktíma verður framlengt í Sjallanum með sameiginlegu balli kvennakvöldsins og herrakvölds Þórs sem verður í íþróttahúsi Síðuskóla á sama tíma. Örfáir miðar eftir samkvæmt okkar heimildum.
Í fyrra var haldið sameiginlegt kvennakvöld handbolta- og knattspyrnuliða kvenna á Akureyri, KA/Þórs og Þórs/KA, og heppnaðist vel. Nú stíga konurnar næsta skref, fara í stærra hús og stækka kvöldið með víðari samvinnu innan Þórs og KA og það eru engin smálið sem bætast við, nýkrýndir Íslandsmeistarar KA í blaki og kvennalið Þórs í körfubolta sem tryggði sér í vor sæti í Subway-deildinni. Það var líka vel til fundið hjá stelpunum í Þór/KA að tylla sér á topp Bestu deildarinnar einmitt núna, nokkrum dögum fyrir kvennakvöldið. Handboltakonurnar í KA/Þór komust í úrslitakeppnina í vor - og tvö lið úr yngri flokkum liðsins hömpuðu Íslandsmeistaratitli.
Kvennakvöldið er semsagt haldið til styrktar fyrir kvennaliðin í blaki hjá KA, körfubolta hjá Þór, handbolta hjá KA/Þór og fótbolta hjá Þór/KA.
Skemmtikraftar verða að verulegu leyti samnýttir á báðum samkomunum og dagskráin almennt svipuð, happdrætti með vinningum upp á rúma milljón og uppboð sem Gummi Ben stýrir þar sem í boði verða málverk eftir Elvu Ragnarsdóttur - sem sumir þekkja sem Elvu hans Mola, Elva góða Elva, ég er Molinn þinn, eins og Bjarni Hafþór orti í afmælissöng Mola. Þetta var útúrdúr. Hvaða konu langar ekki í Buggyferð með Finni Aðalbjörns eða að eignast landsliðstreyju frá Söndru Maríu Jessen? Bara spurning um að bjóða hæst og hreppa hnossið.


Líflínan

Samstaða, kjarkur og þor

Um nesti, fótbolta og fótbolta kvenna

Afgangur og þrír þræðir jarðtengingar
