Fara í efni
Fréttir

Vitundarvakning og viðbrögðin skipta máli

Vinnuflokkurinn tók sér hlé frá römpunarvinnunni, Skipagötunni var lokað og tækjum flokksins lagt við Ráðhústorgið, framan við Vamos. Myndir: Haraldur Ingólfsson

Því var fagnað í gær að 500. rampurinn í verkefninu Römpum upp Ísland var vígður formlega, við skemmtistaðinn Vamos við Ráðhústorgið eins og Akureyri.net greindi frá í gær. Linda Egilsdóttir notast við hjólastól og var ein viðstaddra í gær. Í viðtali við Akureyri.net segir hún verkefnið mjög mikilvægt.

Linda segir frábært að fá mann eins og Harald Þorleifsson til að vekja athygli á aðgengismálum því það skapist umræða í kringum verkefnið og vekji fólk til umhugsunar. Viðbrögðin þegar komið er með ábendingar um aðgengi skipti miklu máli. Hún segir verkefnið og það að það nái út um allt land mjög mikilvægt.

„Þetta skiptir bara öllu. Þó að maður geti fengið hjálp, allir eru fúsir til að hjálpa manni, eða langflestir, en það skiptir bara svo miklu máli að hafa sjálfstæði, að komast það sem maður vill þegar maður vill,“ segir Linda. Hún segir svona verkefni og bætt aðgengi gera það að verkum að fólk verði minna háð öðrum og það eigi alls staðar við því oft stafi hindranirnar af hugsunarleysi. „Þess vegna er svo frábært líka að fá mann eins og Harald til að vekja athygli á þessu. Af því að þá verður til umræða og vekur fólk til meðvitundar, kannski er þetta ekki svo gott hér, við þurfum að laga það. Þannig að þetta skiptir miklu máli.“


Hópmyndataka að lokinni vígslu 500. rampsins framan við skemmtistaðinn Vamos. Linda Egilsdóttir er hér lengst til vinstri af fólkinu sem er í hjólastólum. Við hlið hennar er Sigrún María Óskarsdóttir, sú sem klippti á borðann við athöfnina. 

Hindranir sem virðast litlar í augum þeirra sem ekki eru hreyfihamlaðir og í hjólastól, eða jafnvel eitthvað sem við skynjum ekki sem hindranir, geta verið eitthvað sem kemur í veg fyrir að fólk í hjólastólum komist leiðar sinnar eða skapi hættu. Til dæmis rafmagnskaplar, gúmmímottur eða hvaðeina. Það sem eitt okkar skynjar ekki sem hindrun eða tekur jafnvel ekki eftir getur stöðvað för fólks í hjólastól.  

„Alveg 100%. Áður en ég fór í hjólastól spáði ég ekki mikið í þetta. Ég held að maður spái ekkert í þetta fyrr en einhver bendir manni á það eða maður sjálfur eða einhver nálægt manni þarf á því að halda. Það er bara ekkert óeðlilegt. Þess vegna skiptir svona umræða og svona athygli á verkefni eins og þessu máli. Bara til þess að fólk spái í það. Stundum er þetta bara eitthvað pínulítið, en samt hindrar mann. Og fólk held ég almennt er ekki að gera það af því að það vilji ekki að fatlaðir komist, það hefur bara ekki þurft að pæla í því, sem er allt í lagi. En það er líka bara mjög gott ef fólk tekur jákvætt í ábendingar. Það skiptir líka rosalega miklu máli. Þegar maður bendir á að aðgengi sé ekki gott, sem maður gerir oft af því að við förum víða, þá skipta viðbrögðin svo miklu máli,“ segir Linda Egilsdóttir.

Linda segir fólk ekki endilega taka ábendingum illa, en stundum fari það í vörn og haldi að verið sé að gagnrýna það, en það sé ekki þannig heldur bara verið að koma með vinsamlegar ábendingar. Kannski sé það af því að fólk hefur ekki þurft að pæla í þessari stöðu.

Þegar vinnuflokkur verkefnisins hafði lokið við að rampa upp við Hamar, félagsheimili Þórs, í gærmorgun fór gúmmímotta sem var framan við aðalinnganginn aftur á „sinn stað“. Þegar myndin fór svo á Facebook-síðu Þórsara benti eiginmaður Lindu, Birgir Örn Reynisson, strax á að gúmmímottan væri hindrun fyrir hjólastóla og lagði til að hún yrði fjarlægð, sem var auðvitað gert.

Ætli þessi og félagar hans séu bara ekki í einu af þakklátasta starfi landsins þessa dagana?