Fara í efni
Fréttir

Vígðu 500. rampinn við Vamos

Sigrún María Óskarsdóttir nýbúin að klippa á borðann og 500. rampurinn formlega tekinn í notkun. Myndir: Haraldur Ingólfsson.

Í dag var 500. rampurinn í verkefninu Römpum upp Ísland vígður formlega við skemmtistaðinn Vamos við Ráðhústorgið á Akureyri. 

Markmið verkefnisins var upphaflega að koma upp þúsund römpum fyrir 11. mars 2026, en Guðni Th. Jóhannesson forseti breytti því eftirminnilega í 1.500 með einu tússpennastriki. Haraldur Þorleifsson, fyrrum stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins, en hann gat því miður ekki verið við athöfnina í dag. Bæjarfulltrúarnir Elma Eysteinsdóttir og Hlynur Jóhannsson fluttu ávörp við athöfnina, Sigrún María Óskarsdóttir klippti á borðann og boðið var í óáfengan sumardrykk á Vamos. 

Elma og Hlynur komu bæði inn á mikilvægi þessa verkefnis og lögðu áherslu á mannréttindaþáttinn í því að ramparnir gera hreyfihömluðum auðveldara fyrir að komast leiðar sinnar. Það ætti því vel við að vígja 500. rampinn framan við skemmtistað í bænum því skert aðgengi, til dæmis fyrir ungt fólk að skemmtistöðum, gæti oft og tíðum átt þátt í því að hreyfihamlaðir einangrist félagslega.


Nokkur fjöldi fólks mætti í Skipagötuna til að verða vitni að því þegar 500. rampurinn var formlega tekinn í notkun. Vinnuflokkarnir á vegum Römpum upp verkefnisins tóku sér hlé frá rampavinnunni og lögðu bílum og tækjum í Skipagötuna framan við skemmtistaðinn Vamos. 

Vinnuflokkur frá verkefninu hefur verið á Akureyri að undanförnu og sækist verkið vel, að því er virðist. Ramparnir rjúka upp við dyr verslana og þjónustufyrirtækja í miðbænum og víðar.

Elma Eysteindóttir bæjarfulltrúi flutti ávarp áður en rampurinn var vígður.

Hlynur Jóhannsson bæjarfulltrúi flutti ávarp við athöfnina í dag.

Á vef verkefnisins segir að aðgengi á Íslandi sé oft mjög takmarkandi fyrir hreyfihamlaða. Því sé mikilvægt að koma upp römpum eða tryggja aðgengi með öðrum hætti. „Oft þarf ekki annað en að leysa aðgengi upp eina tröppu eða yfir háan þröskuld með einföldum hætti. Með sameiginlega átaki þjónustuaðila, verktaka og yfirvalda á þetta ekki að vera mikið mál — og með því stuðlum við að bættu umhverfi og betra aðgengi á Íslandi," segir á vefnum rampur.is.

1000 RAMPAR UM ALLT ÍSLAND Á 4 ÁRUM - Áletrunin í skóflunni á litlu gröfunni sem rampavinnuflokkurinn notar við verkefnið ber þess merki að hafa verið notuð við lagningu yfir 500 rampa. Reyndar breyttist 1.000 í 1.500 með einu tússpennastriki Guðna Th. Jóhannessonar eftir að verkefnið hófst.

Við höfum kíkt á vinnuflokkinn og verk hans öðru hverju á meðan unnið hefur verið við römpun Akureyrar. Myndirnar eru frá vinnu við Bautann, Útivist og veiði, Pedromyndir og Hamar.