Vísindadagur SAk og HA í dag – öllum opinn

Vísindadagur Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) og Heilbrigðisvísindastofnunar HA og SAk fer fram í dag, fimmtudag 18. september. Á dagskránni eru fjölbreytt og áhugaverð erindi þar sem starfsmenn SAk og samstarfsaðilar kynna rannsóknir og þróunarverkefni, segir í tilkynningu. Viðburðurinn fer fram í fundarherberginu Kjarna á SAk og verður einnig í beinu streymi á Teams.
Laufey Hrólfsdóttir, deildarstjóri mennta- og vísindadeildar SAk, segir dagskrána í ár vera einstaklega fjölbreytta. „Erindin endurspegla vel þá breidd sem einkennir vísindastarfið á sjúkrahúsinu. Við erum stolt af því að hér á Norðurlandi fari fram öflugt og fjölbreytt vísindastarf,“ segir hún á vef SAk.
Heilbrigðisvísindastofnunin er vísindaleg rannsóknastofnun sem var stofnuð með rammasamningi um samstarf milli Sjúkrahússins á Akureyri og Háskólans á Akureyri. Markmið stofnunarinnar er að efla kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindum með því að styrkja samstarf og gera vísindastarf stofnananna sýnilegra. Stofnanirnar vinna einnig saman að uppbyggingu sérfræðimenntunar innan heilbrigðisvísinda.
„Vísindastarfið eflir gæði og öryggi þjónustunnar“
„Sem dæmi um sérstaklega áhugaverð erindi nefnir Laufey kynningu á niðurstöðum úr alþjóðlegu verkefni um hjartastopp í Evrópu, European Registry of Cardiac Arrest,“ segir í tilkynningu á vef SAk. „Einnig verður fjallað um spennandi samstarfsverkefni þar sem nýtt EEG-US tæki til heilaafritunar og ómskoðunar verður prófað. Auk þess verða kynnt lokaverkefni meistaranemenda og sérnámslækna á SAk sem fjalla meðal annars um bráðalækningar og umbætur í heilbrigðisþjónustu. Dagskráin sýnir vel hvernig vísindastarf styrkir gæði og öryggi þjónustunnar.“
- Viðburðurinn er öllum opinn – bæði þeim sem vilja mæta á staðinn í Kjarna og þeim sem kjósa að fylgjast með í gegnum Teams – verið hjartanlega velkomin. Hér má finna dagskrána Vísindadagur og tengil á Teams: Join conversation