Fara í efni
Fréttir

Vilja heimila byggingu húsanna við Viðjulund

Fyrirhugaðar byggingar við Viðjulund 1 og 2. Mynd úr tillögu umsækjanda.

Meirihluti skipulagsráðs Akureyrarbæjar leggur til við bæjarstjórn að samþykkja breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóða við Viðjulund 1 og 2 með flestum þeirra breytinga sem gerðar hafa verið af umsækjanda til að koma til móts við samþykkt skipulagsráðs frá því í október. Svör til þeirra sem gerðu athugasemdir við skipulagsbreytinguna voru jafnframt afgreidd á fundi skipulagsráðs.

Framtíðarbyggingaráform á þessum lóðum hafa reglulega komið til umfjöllunar í skipulagsráði frá því í desember 2022 þegar Ágúst Hafsteinsson, fyrir hönd Klettabjargar ehf., sótti fyrst um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 1 við Viðjulund. Ýmsar athugasemdir hafa komið fram í ferlinu, en afgreiðslan nú er í framhaldi af breytingum sem umsækjandi gerði til að koma til móts við athugasemdir skipulagsráðs frá því í haust.

Þær breytingar sem umsækjandi gerði og lagði fyrir skipulagsráð eru í stuttu máli:
 
  • Vestara húsið á lóðinni lækkar úr sjö hæðum í sex hæðir.
  • Felld eru út ákvæði um uppgefinn fjölda í búða í hvoru húsi.
  • Ákvæði um fjölda bílastæða breytast til samræmis við ákvæði Hagahverfis og Móahverfis.
  • Bil milli byggingarreita minnki úr níu metrum í sjö.
    (Þetta var eina breytingin sem var ekki samþykkt af skipulagsráði)
  • Bætt er við ákvæði um að svalir og skyggni megi standa 1,5 metra út fyrir byggingarreit.
  • Sett inn kvöð um girðingu meðfram lóðarmörkum vestan megin til að minnka vindhraða.

Öll ummmerki um sögu bæjarhlutans hverfa

Fyrir utan hæð, form og útlit bygginganna hafa verið gerðar athugasemdir við veigamikið atriði í þessum áformum, en það er niðurrif gamla stórbýlisins Lundar. Í ár eru 99 ár frá því að húsið var byggt. Í umsögn Minjastofnunar Íslands frá því í september er niðurrif Lundar sagt rýra gildi byggðarinnar í þessum bæjarhluta. Í umsögninni segir meðal annars: 

Eldra búsetulandslag brekkunnar er að mestu horfið undir skipulagða íbúðabyggð. Með því að fjarlægja þessi hús yrðu öll ummerki um sögu þessa bæjarhluta í umhverfinu og þetta gamla býli sem hverfið dregur nafn sitt af, horfin. Minjastofnun telur niðurrif Lundar, þá sérstaklega íbúðarhússins, rýra gildi byggðarinnar í þessum hluta bæjarins.

Samtökin Arfur Akureyrar gerðu einnig alvarlegar athugasemdir við þessi áform og tóku meðal annars undir sjónarmið Minjastofnunar, eins og Akureyri.net greindi frá í frétt í nóvember.