Fara í efni
Fréttir

Akureyri „römpuð upp“ á næstu vikum

Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Vinnuflokkur frá Römpum upp Ísland er nú staddur á Akureyri en til stendur að rampa upp bæinn á næstu vikum. Byrjað verður á fyrirtækjum í miðbænum en síðan verður farið víðar um sveitarfélagið, m.a. verður einn rampur reistur í Hrísey.

„Við erum með veglegan lista á Akureyri og ætlum að reyna að komast yfir sem mest á meðan við erum hérna,“ segir Hringur Hilmarsson, yfirhönnuður hjá Römpum upp Ísland. Vinnuhópurinn verður að þessu sinni á Norðurlandi út maí.

Fjórir af fimm í vinnugengi Römpum upp Ísland á Ráðhústorginu á Akureyri. Akureyrarbær býður hópnum í mat á meðan hann er hér og borðar hópurinn því alltaf hádegismat með starfsmönnum bæjarins.

Góðar móttökur á Akureyri

Vinnuhópurinn hefur heldur betur látið hendur standa fram úr ermum síðan hann kom norður í vikunni. Byrjað var á að rampa upp fyrirtæki í kringum Ráðhústorgið og risu sex rampar strax fyrsta daginn. Dæmi um fyrirtæki sem hafa nú þegar verið römpuð upp eru Saumastofan í Brekkugötunni, verslunin Amma mús og GB Gallerí. Þá voru framkvæmdir í fullum gangi við Serrano, Fasteignasölu Akureyrar og R5 þegar Akureyri.net bar að garði í gær. Þetta er í fyrsta sinn sem Römpum upp Ísland kemur á Norðurlandið en tilgangur verkefnisins er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslunin og veitingahúsum á Íslandi. „Við römpum bara upp hjá verslunum og þjónustu, við sinnum ekki opinberum aðilum. Hið opinbera er með eyrnamerkt fé sem það notar í aðgengismál,“ segir Hringur.

  • Hægt er að sækja um stuðning til að bæta við aðgengi á heimasíðunni rampur.is.

Römpum upp Ísland er á Akureyri í maí. Um 450 rampar hafa verið kláraðir hingað til á landinu öllu og listinn á Akureyri er langur.

Auk Akureyrar fer hluti hópsins einnig á Húsavík og í Fjallabyggð. „Við erum náttúrlega vanir því að vera að vinna í Reykjavík og það gengur allt á öðrum tíma þar. Í Reykjavík eru allir að drífa sig svo mikið, þar erum við alltaf fyrir en hérna er þessu öfugt farið, hér hefur fólk áhyggjur af því að það sé fyrir okkur,“ segir Hringur ánægður með vinnuaðstæðurnar á Akureyri.

Markmið Römpum upp Ísland er að bæta aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslunum og veitingahúsum á Íslandi. Hægt er að sækja um stuðning til að bæta við aðgengi á heimasíðunni rampur.is. Aðgengissjóður kostar samþykkt verkefni.