Við gerum okkur lífið erfitt í góðri trú
„Desember er dimmasti mánuður ársins. Af hverju er hann búinn að umbreytast úr kertaljósi, smákökum og Ólsen-Ólsen í að vera ein löng búðaferðarhægðatregða og brjóstsviðatöflubryðjun hjá allt of mörgum?“
Rakel Hinriksdóttir, blaðamaður akureyri.net, fjallar um jól og aðventukvíða í nýjum, umhugsunarverðum pistli. Henni hefur lengi þótt desember erfiður, „og í rauninni á aðventukvíðinn minn sér langa sögu, sem er eflaust ekki óvenjuleg á neinn hátt,“ skrifar hún.
Sorg í hjarta og söknuður
„Þegar jólin nálgast, finn ég fyrir meiri sorg í hjartanu og saknaðar til þeirra sem eru farin,“ segir Rakel og rifjar m.a. upp samveru með ömmu sinni, sem var henni afar kær. „Það er eins og jólaljósin í gluggum bæjarins séu örlitlar minningar um æskujólin, litlar týrur sem birta mér myndir af kertaljósum í rafmagnsleysi, mandarínum, kasínu og piparkökum dýfðum í lítið mjólkurglas. Jólasveininn sem ég föndraði með ömmu minni úr seríospakka og var líka sprellikarl. Það var hægt að toga í spotta og hendur og fætur sveinka sveifluðust upp og niður eins og hann væri afvelta fluga í gluggakistunni.“
Viljum standa okkur vel
Svarið við spurningunni Af hverju gerum við okkur lífið svona erfitt í desember er, segir Rakel: Við gerum það í góðri trú.
Hún skrifar: „Við viljum standa okkur vel og sýna okkar nánustu hvað okkur þykir vænt um þau. Búa til minningar. En minningar verða ekki til í andlegri fjarveru í matvörubúð og syndaflóði af jóladrasli. Tínum af okkur gervijólaþarfir eins og api sem tínir af sér lýs. Eftir stendur það sem þú og þínir nánustu þurfa í rauninni á að halda til þess að njóta jólanna og dimmu desembermánaðar saman.“
Pistill Rakelar: Aðventukvíði í rafmagnaðri jólapeysu