Fara í efni
Menning

Verk 4 listamanna keypt fyrir Valtýs-peningana

Heiðdís Hólm, Salóme Hollanders, Sara Björg Bjarnadóttir og Sigurður Atli Sigurðsson.

Listasafnið á Akureyri hefur keypt verk af fjórum myndlistarmönnum fyrir styrk sem safninu var úthlutað úr sjóði Listaverkasafns Valtýs Péturssonar. 

Styrkurinn nam 1, 5 milljónum króna. Hlynur Hallsson safnstjóri greindi frá ákvörðun sjóðsins í  lok janúar, á árlegum kynningarfundi safnsins. Hann sagði alltaf mikinn heiður að fá styrk fyrir starfsemi safnsins en umræddur styrkur væri sérstaklega ánægjulegur „að því leyti að honum skal varið í kaup á listaverkum eftir ungt myndlistarfólk, sem er mikið fagnaðarefni.“

Í tilkynningu frá safninu í dag kemur fram að keypt voru verk eftir myndlistarfólkið Heiðdísi Hólm, Salóme Hollanders, Sigurð Atla Sigurðsson og Söru Björgu Bjarnadóttur. Einkasýningar Heiðdísar, Vona að ég kveiki ekki í, Salóme, Engill og fluga, og Sigurðar Atla, Sena, standa nú yfir í safninu, en Sara Björg var nýverið tilnefnd til hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna fyrir sýninguna Tvær eilífðir milli 1 og 3 sem hún setti upp í Listasafninu á síðasta ári.

Þann 27. mars síðastliðinn voru 105 ár liðin frá fæðingu Valtýs. Listaverkasafnið var stofnað 2011 til að halda ævistarfi hans til haga. 

„Valtýr Pétursson (1919−1988) var afkastamikill listmálari og meðal brautryðjenda abstraktlistar á Íslandi. Hann átti litríkan og margslunginn feril, var ötull gagnrýnandi og virkur þátttakandi í félagsstarfi myndlistarmanna og því mjög við hæfi að afmæli hans sé fagnað með því að styrkja stoðir ungs myndlistarfólks,“ segir í tilkynningu Listasafnsins á Akureyri.

Valtýr Pétursson myndlistarmaður.